Launajafnrétti til umfjöllunar á fundi NFS, Friedrich Ebert Stiftung og DGB
Á dögunum var haldinn fundur í norrænum og þýskum samstarfshópi um jafnrétti á vinnumarkaði. Um er að ræða samstarfvettvang milli norrænna og þýskra stéttarfélaga sem og stofnunar Friedrich Ebert, þýsk lýðræðisstofnun sem starfar víða um heim og rekur til að mynda norræna skrifstofu í Stokkhólmi. Það er mikill hugur í þýsku verkalýðshreyfingunni að vinna gegn kynbundnum launamun sem er hvað mestur þar af öllum OECD ríkjunum. Fjallað var um málið á vef BSRB.
Á fundinum var fjallað um launajafnrétti á breiðum grunni þar sem ýmis verkefni og áherslur á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og hjá Evrópusambandinu voru lögð til grundvallar. Kynntar voru ýmsar aðferðir og leiðir sem hafa verið farnar í Evrópu. Fríða Rós Valdimarsdóttir, sérfræðingur í fræðslumálum hjá BSRB ásamt Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttir, sérfræðingi í málefnum innflytjenda á vinnumarkaði og jafnréttismálum hjá ASÍ héldu kynningu um nýju fæðingarorlofslögin á Íslandi. Það vakti mikla athygli meðal fundargesta að Ísland hafi verið fyrst til að lögfesta það mikla framfaraskref að báðir foreldrar eiga nú jafnan rétt til fæðingarorlofs.
Þróun umönnunarstarfa
Aðalfyrirlesari fundarins var Marina Durano, femínískur hagfræðingur og ráðgjafi hjá UNI Global Union. Hún fjallaði um hvernig umönnunarstörf hafa þróast undanfarna áratugi og laun, kjör og starfsaðstæður versnað. Þessari varhugaverðu þróun sem á sér stað um allan heim þarf að sporna gegn. Einkum í ljósi þess að sífellt vantar fleira starfsfólk í umönnun auk þess sem umönnunarþörf mun aukast mjög á næstu árum vegna fólksfjölgunar og hækkunar lífaldurs.
Leiðrétting á verðmætamati starfa
Rachel Mackintosh, aðstoðarframkvæmdastjóri ETU sem er stéttarfélag á Nýja Sjálandi fyrir starfsfólk á almennum markaði, sagði frá vinnu að bættu verðmætamati starfa eftir kyni. Hún nefndi mál Christine Barlett sem höfðaði mál fyrir dómstólum þar sem hún krafðist þess að umönnunarstarf sitt á hjúkrunarheimili væri metið sambærilegt við starf fangavarða. Hún sigraði dómsmálið og hafði það víðtæk áhrif á konur í sambærilegum störfum. 55 þúsund einstaklingar fengu launaréttingu á bilinu 14 – 49%. Sambærileg málaferli hafa farið fram í Bretlandi og er ekki seinna vænna að hefjast handa við að rétta af verðmætamatið áður en konur um allan heim fara að krefjast bóta þar sem slík leið er mjög dýr fyrir launagreiðendur, hvort sem er ríki, sveitarfélög eða fyrirtæki á almennum markaði. Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, situr í framkvæmdastjórn um endurmat kvennastarfs sem er í vinnslu hjá forsætisráðherra.
Sýnileiki kvenna í kjarasamningsviðræðum mikilvægur
Barbara Helfferich, ráðgjafi í jafnréttismálum hefur starfað að stefnumótun í jafnréttismálum um marga ára skeið og er til að mynda ein af þeim sem stofnaði Evrópsku kvenréttindasamtökin (European Women´s Lobby). Hún fjallaði um mikilvægi þess að nýta kjarasamningaviðræður til að ná fram jafnrétti kynjanna.
Barbara reifaði þær leiðir sem hafa verið farnar í Evrópu til að koma á meira jafnrétti í gegnum kjarasamningaviðræður en að hennar mati eru þær leiðir áhrifamestar til að ná árangri í átt að jafnari valdaskiptingu kynjanna. Til þess að nýta þann vettvang sem best er mikilvægt að jafna kynjaskiptingu í samninganefndum. Annars vegar vegna þess að konur eru líklegri til að setja jafnréttismál í forgang og hins vegar til að vinna gegn þeirri hugmynd að kjarasamningar séu karlamál en karlar hafa í flestum löndum verið hvað sýnilegastir þegar samið er um kaup og kjör launafólks.
Sterkur samstarfsvettvangur
Ýmis önnur mál önnur voru reifuð á fundinum og ljóst að samstarfshópurinn mun vinna áfram í sameiningu að jafnrétti kynjanna Næsti fundur samstarfshópsins er áætlaður í maí þar sem unnið verður áfram með þær hugmyndir sem komu fram á þessum fundi hópsins.