Viðspyrna fyrir atvinnulíf og heimili
Eftirtaldar ákvarðanir hefur bæjarstjórn Svf. Árborgar tekið til að bregðast við áhrifum af Covid-19 og aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við faraldrinum.
Frekari aðgerðir eru þegar fyrirhugaðar og má þar nefna samráð við íþróttafélög til að bregðast við röskun á íþróttastarfi og mat á aðgerðum til að bregðast við aukinni félagslegri einangrun eldri borgara. Ákvarðanir þessar eru til endurskoðunar hjá bæjarstjórn vikulega á meðan áhrifa gætir af Covid-19. Nýjar og breyttar ákvarðanir verða teknar eftir því sem þörf krefur og aðstæður skýrast.
1. Leiðrétting á gjöldum leikskóla, skóla og frístundaheimila í samkomubanni
Leikskólagjöld verða endurgreidd foreldrum þá daga sem barn mætir ekki á leikskóla, sé það að höfðu samráði foreldra við leikskólastjóra. Fæðisgjöld á leikskóla verða endurgreidd fyrir þá daga sem börn fá ekki fæði. Sama fyrirkomulag gildir um gjöld fyrir frístundaheimili og fæði í grunnskólum.
Bæjarráð 19. mars 2020
2. Frestun fasteignagjalda á íbúða- atvinnuhúsnæði
Eigendur atvinnu- og íbúðarhúsnæðis geta sótt um frestun á allt að þremur gjalddögum fasteignagjalda á tímabilinu frá apríl til nóvember 2020. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur til er 15. janúar 2021. Sækja þarf um frestun fyrir hvern gjalddaga sérstaklega, inni á „Mín Árborg“.
Bæjarráð 2. apríl 2020
3. Hækkun á frístundastyrk
Frístundastyrkur ársins 2020 fyrir börn á aldrinum 5-17 ára verður hækkaður úr 35.000 kr. í 45.000 kr.
Bæjarráð 2. apríl 2020
4. Sveigjanleiki í innheimtu og álagningu
Dráttarvextir verða ekki reiknaðir á fyrstu 6 mánuði vanskila vegna krafna sem sveitarfélagið gefur út í apríl og maí 2020. Innheimtubréf verða ekki send út ef greitt er eftir eindaga þessa sömu mánuði. Lögð verður áhersla á frekari sveigjanleika í innheimtu á meðan áhrifa gætir af Covid-19 og eru íbúar hvattir til að setja sig í samband við sveitarfélagið sjái þeir fram á erfiðleika við að standa í skilum.
Bæjarráð 2. apríl 2020
5. Greiðslur til foreldra í stað félagslegrar liðveislu
Fjölskylda fatlaðs barns sem er skipað í verndarsóttkví að læknisráði fær greitt fyrir 4 tíma á dag, 18 virka daga (frá 1.-30.apríl). Bæjarráð 2. apríl 2020