Stuðningur Hjálparstarfs kirkjunnar við verkefni sem snýr að valdeflingu ungmenna í fátækrarhverfum Kampala, höfuðborg Úganda, hefur skilað góðum árangri og mætt sárri þörf ungmenna í krefjandi aðstæðum. Þetta kemur fram í nýrri óháðri úttekt sem unnin var af alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu VIG, en Hjálparstarf kirkjunnar hefur um árabil verið einn af lykil samstarfsaðilum utanríkisráðuneytisins í þróunarsamvinnu.
Verkefnið er framkvæmt af félagasamtökunum Uganda Youth Development Link (UYDEL) og Lúterska heimssambandinu (Lutheran World Federation) og er fjármagnað með stuðningi í gegnum rammasamning við utanríkisráðuneytið.
Hjálparstarf kirkjunnar hefur stutt við verkefnið frá 2017 sem er ætlað til að minnka atvinnuleysi og tengda fátækt í fátækrahverfum Kampala. Atvinnutækifæri í höfuðborginni eru fá og mörg ungmenni skortir menntun og þjálfun til að eiga möguleika á að sækja um störf eða ráðast í sjálfstæðan atvinnurekstur. Þá eru börn og unglingar í fátækrahverfum útsett fyrir misnotkun sökum fátæktar og þá rekur neyðin ungmenni til að taka þátt í glæpagengjum eða selja líkama sína til að sjá sér farborða. Markmið verkefnisins er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem eykur atvinnumöguleika þeirra. Einnig að unglingarnir taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrki sjálfsmyndina og þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.
Jákvæðar niðurstöður þrátt fyrir krefjandi aðstæður
Niðurstöður lokaúttektar núverandi verkefnafasa eru jákvæðar. Þrátt fyrir áskoranir í starfi, m.a. vegna COVID-19 faraldursins, náði verkefnið settum markmiðum, m.a. hvað varðar aukna samfélagsvitund, nýliðun meðal ungmenna, starfsþjálfun og námslok. Þá fengu tveir af hverjum þremur þátttakenda störf í kjölfar þjálfunar, þrátt fyrir hindranir sem enn á eftir að yfirstíga. Þar að auki hefur verulegur árangur náðst hvað varðar aukið aðgengi ungmennanna að kynfræðslu og getnaðarvörnum, en úttektin sýnir fram á minnkaða áhættuhegðun meðal 82% þátttakenda og að 92% þátttakenda hafi nú grunnþekkingu á sviði kynheilbrigðis.
„Það er afar ánægjulegt að sjá þennan góða árangur sem verkefni íslenskra félagasamtaka hafa skilað. Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar falla vel að stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu, einkum hvað varðar aðstoð við jaðarsetta hópa og samfélög líkt og UYDEL hefur gert í fátækrahverfum Kampala“ segir Davíð Bjarnason, deildarstjóri tvíhliða þróunarsamvinnu.
Í niðurstöðu úttektarinnar eru 18 tillögur settar fram er varða þjálfun og endurgjöf, atvinnu og lífsskilyrði, valdeflingu ungmenna, kynjasamþættingu og varnir gegn misnotkun, auk tillagna er varða stjórnsýslu verkefnisins.
Eins og úttektin ber með sér tekur verkefnið á mikilvægum málaflokkum og þá þykja áherslur UYDEL hafa stuðlað að því að þróunarmarkmiðum Úganda hafi verið mætt. Félagasamtökin taka þannig virkan þátt á landsvísu og eru stefnumótandi hvað varðar atvinnusköpun og aukin tækifæri fyrir viðkvæman hóp ungmenna í fátækrahverfum Kampala.