Tap varð á rekstri Reykjavíkurborgar (A- og B-hluta) í fyrra upp á 3,4 milljarða, en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 9,6 milljarða afgangi. Niðurstaðan er því tæplega 13 milljörðum lakari en áætlað hafði verið. Árið 2022 hafði verið jákvæð rekstrarniðurstaða upp á 6 milljarða á rekstrinum. Borgarstjóri segir ánægjulegt að áætlanir við að ná niður hallarekstri séu að skila árangri. Fjallað er um málið á vef MBL.is
Þar segir að Þegar á fyrri hluta síðasta árs var ljóst að rekstrarniðurstaðan var orðin mun lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Var rekstrarniðurstaða fyrri hluta ársins orðin tæplega 13 milljörðum lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Var tap A- og B-hluta á miðju ári 6,7 milljarðar, en áætlað hafði verið að afgangur væri 6 milljarðar.
Fjármagnsgjöld 10,3 milljörðum yfir áætlun
Tap varð á rekstri borgarsjóðs (A-hluta) upp á tæplega 5 milljarða í fyrra og var þar frávik upp á 0,4 milljarða frá áætlun. Engu að síður var afkoma A-hlutans nokkuð betri en í fyrra þegar tapið var 15,6 milljarðar. Þetta er meðal þess sem lesa má úr ársreikningi borgarinnar sem lagður var fyrir borgarráð í dag.
Í tilkynningu frá borginni kemur fram að rekstrarniðurstaðan fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hafi verið 47,6 milljarðar og hækkaði um 10,2 milljarða milli ára. Helsta ástæðan fyrir verri afkomu en áætlað hafði verið er sögð vera fjármagnsliðir, en fjármagnsgjöld voru 10,3 milljörðum yfir áætlun.