Framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja, sem tók gildi árið 2006, var til umræðu á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Høgna Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, sem fram fór í Þórshöfn í vikunni.
Hoyvíkursamningurinn svokallaði er víðtækasti fríverslunarsamningur sem þjóðirnar hafa undirritað og leggur grunn að góðu viðskiptasambandi Íslands og Færeyja sem hefur vaxið jafnt og þétt frá gildistöku, hvað varðar vörur og þjónustu.
Ráðherrarnir skipa Hoyvíkurráðið sem kemur reglulega saman til að ræða framkvæmd samningsins en ráðið er auk þess mikilvægur vettvangur til að ræða önnur brýn málefni er varða viðskipti landanna, s.s. um samstarf á sviði sjávarútvegsmála og fiskveiða. Utanríkisráðherrarnir voru sammála um ágæti samningsins, sem hafi verið til hagsbóta fyrir eyjurnar tvær.
„Í síkvikum heimi er lykilatriði að við styrkjum enn frekar böndin við okkar nánustu nágranna. Heilt yfir fara hagsmunir okkar og Færeyja saman og á þeim grunni þurfum við byggja okkar samskipti. Hoyvíkursamningurinn skapar traustan grunn til þess. Ég hef fulla trú á því að það séu enn ónýtt tækifæri til að styrkja efnahagssamvinnu landanna enn frekar og að því vil ég stuðla“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eftir fund ráðherranna.
Í heimsókn sinni til Færeyja heimsótti utanríkisráðherra orkufyrirtækið SEV, sem er í eigu sveitarfélaganna í Færeyjum, til að kynna sér vindorkuvinnslu og virkjun sjávarfalla og flutti ávarp á flugvellinum í Vágar, í tilefni af fyrsta áætlunarflugi Icelandair til Færeyja, þar sem hún undirstrikaði náið samband þjóðanna.