Reglugerð heilbrigðisráðherra um neyslurými hefur verið birt til umsagnar til 30. júní næstkomandi. Alþingi samþykkti nýlega frumvarp heilbrigðisráðherra til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni sem fjallar um heimild sveitarfélaga til að stofna og reka neyslurými en reglugerðin á stoð í þeim lögum.
Í neyslurými verður einstaklingum heimilt að neyta ávana- og fíkniefnum í æð. Markmiðið með neyslurýmum, sem er skaðaminnkandi aðgerð, er að koma í veg fyrir frekari óafturkræfan skaða, auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem neyta efnanna með þessum hætti.
Á grundvelli laganna ber heilbrigðisráðherra að setja reglugerð um stofnun og rekstur neyslurýma þar sem meðal annars skal kveðið á um þjónustu sem veita skal í neyslurými, um hollustuhætti, um verkefni, öryggi og hæfni starfsfólks, um upplýsingaskyldu rekstraraðila gagnvart Embætti landlæknis, setningu húsreglna og eftirlit með starfsemi neyslurýmis.
Í heilbrigðisráðuneytinu hefur undanfarið verið unnið að samningu þessarar reglugerðar um neyslurými. Við þá vinnu hafa verið hafðar til hliðsjónar þær ábendingar sem bárust í tengslum við vinnu að frumvarpinu, meðal annars frá Embætti landlæknis, Rauða krossi Íslands og Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess hafa verið hafðar til hliðsjónar reglugerðir um neyslurými í Noregi og Danmörku.