Samkvæmt hagrænu mati sem unnið var að beiðni forsætisráðherra og kynnt var í ríkisstjórn í morgun yrðu efnahagslegar afleiðingar þess að viðhalda óbreyttu ástandi ferðatakmarkana gríðarlegar og rétt að draga úr þeim samhliða sóttvarnaaðgerðum. Takmarkaður ferðavilji í heiminum skapi aðstæður til að stíga varfærin skref í átt til opnunar.
Þá hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fallast á tillögu sóttvarnalæknis, sem fjallað var um á fundi ríkisstjórnar, um breytingu á reglum um komur ferðamanna til Íslands. Komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum eða framvísa jafngildu vottorði að utan. Að öðrum kosti þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví eins og verið hefur.
Sóttvarnalæknir mun bera meginábyrgð á framkvæmd sýnatöku og greiningu sýna í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Íslenska erfðagreiningu en forsætisráðherra hefur skipað samhæfingarteymi sem aðstoðar sóttvarnalækni við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.
Bráðabirgðamat bendir til þess að kostnaður við sýnatöku á Keflavíkurflugvelli fyrstu tvær vikurnar frá rýmkun reglna um komu ferðamanna til landsins yrði um 160 milljónir króna ef 500 manns koma til landsins á dag en stefnt er að því að tilkynna á næstu dögum hvað sýnatakan muni kosta farþega.
Efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana – hagræn greining.
Minnisblað sóttvarnalæknis.