Kostnaðarverð bensínlítra á heimsmarkaði fór í dag yfir 150 íslenskar krónur. Við upphaf innrásar Rússa í Úkraínu 24. febrúar sl. var verð á lítra af bensíni á heimsmarkaði undir 100 krónum. Dísillítri kostaði þá ríflega 101 krónu en er um þessar mundir í ríflega 144 krónum. Ef farið er ár aftur í tímann og verðin könnuð 1. júní 2021 þá var bensínlítrinn í tæplega 70 krónum og dísillítrinn í 69 krónum.
Bensínlítri á markaði hefur hækkað í verði til íslenskra neytenda um 50% frá upphafi innrásarinnar í febrúar og um 114% samanborið við verðið fyrir einu ári síðan. Hækkun dísillítrans hefur verið svipuð.
Þrátt fyrir þessar miklu hækkanir sem stýrast af heimsástandi og ólgu á erlendum mörkuðum þá hafa íslensk stjórnvöld ekki gert neitt til að stemma stigum við þessum gríðarlegu hækkunum á eldsneyti til neytenda. Víða í Evrópu hafa stjórnvöld komið með inngrip og aðgerðir til þess að draga úr áhrifum þessara miklu heimsmarkaðshækkana á afkomu heimila og fyrirtækja. Meðal aðgerða í má nefna lækkun eldsneytisskatta, lækkun virðisaukaskatts á bílaeldsneyti, verðþak á bensín- og dísilverð og skattafrádrátt vegna eldsneytis í rekstri ökutækja. Til aðgerða hefur m.a. verið gripið í Svíþjóð, Finnlandi , Þýskalandi, Póllandi, Belgíu, Ungverjalandi.
Hvað er að frétta hér heima? Formlegu erindi FÍB til stjórnvalda um það að koma til móts við neytendur á þessum óeðlilegu tímum með a.m.k. tímabundinni lækkun eldsneytisgjalda hefur ekki verið svarað nema með neikvæðum ummælum í fjölmiðlum.
Það er sjálfsögð krafa að ríkisstjórnin grípi til aðgerða og móti stefnu til að draga úr neikvæðum áhrifum fordæmalausra verðhækkana á heimilin í landinu! Rekstur fjölskyldubílsins er næst útgjaldafrekasti liðurinn í rekstri íslenskra heimila og hækkun eldsneytis hefur haft verulega útgjaldaaukningu í för með sér.
Verst bitnar þetta ástand á íbúum í dreifbýli sem þurfa sækja þjónustu um langan veg. Hækkunin hefur einnig umtalsverð áhrif á vísitölu neysluverðs sem kyndir hressilega verðbólgubálið sem kemur sér illa við svo til alla.
Mynd: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
https://gamli.frettatiminn.is/27/04/2022/rafmagnsreikningurinn-verdur-yfir-100-000-a-manudi-a-islandi/
https://gamli.frettatiminn.is/02/11/2019/noregur-missti-vold-sin-yfir-raforku-landsins-til-acer-i-dag/