
Litlu mátti muna að illa færi í höfninni á Arnarstapa þann 9. maí síðastliðinn þegar séra Karl V. Matthíasson, féll í sjóinn þegar hann var að klöngrast á milli báta eftir róður. Karl er 71 árs og rær með félaga sínum, Birki Atlasyni, á bátnum Straumur SH-61. Vefurinn Auðlindin greindi frá slysinu og hægt er að smella á link hér að neðan til þess að lesa ítarlega grein um slysið.
,,Sjómenn þurfa stundum yfir strandveiðitímann að klifra yfir 12 til 15 báta til að komast á sjó á morgnanna, eða upp á bryggju eftir róður. Svo margir bátar eru bundnir saman. Mörg dæmi eru um að sjómenn sofi í bátunum sínum á Arnarstapa og í fleiri höfnum. Slökkviliðsstjóri segir ljóst að afar illa gæti farið ef eldur kviknaði í bát í langri röð plastbáta.“ Segir séra Karl í viðtali við Auðlindina.is
Karl segist í samtali við Auðlindina hafa verið að fikra sig á milli báta – frá einu stefni yfir til annars – þegar hann rann til og féll í sjóinn. „Ég var búinn að vera á sjó í 12 tíma og var dauðþreyttur. Einbeitingin var ekki mikil en ég var búinn að klifra yfir sex báta. Ég var ekki með neitt til að halda mér í þegar mér skrikaði fótur og datt á bólakaf í sjóinn,“ segir hann.
Svo heppilega vildi til að Birkir Atlason, félagi Karls, var skammt frá, kominn yfir aðeins fleiri báta á leið sinni að bryggjunni. Hann varð sem betur fer var við fallið. „Hann er yngri en ég og liprari. Hann gat klifrað til baka og teygt sig niður til mín. Hann hélt í mig þar til aðrir menn komu til aðstoðar og hjálpuðu mér upp.“ Segir í frétt Auðlindarinnar sem hægt er að lesa í heild sinni hér að neðan með því að smella á linkinn að síðunni: