Bergþóra Þorkelsdóttir skipuð forstjóri Vegagerðarinnar
Umsækjendur um embætti forstjóra Vegagerðarinnar voru 25 en tveir drógu umsóknir sínar til baka. Í greinargerð hæfnisnefndar eru tilgreindir fjórir umsækjendur sem nefndin telur hæfasta til að gegna umræddu starfi og var Bergþóra ein þeirra. Í hlutlægu hæfnismati nefndarinnar, þar sem vægi ólíkra hæfnisþátta var metið, fékk Bergþóra flest stig.
Bergþóra lauk námi í markaðsfræðum frá Chartered Institute of Marketing í Bretlandi (2005), en hefur einnig lokið námi í rekstrar- og viðskiptafræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands (2000) og kandídatsprófi í dýralækningum frá konunglega Landbúnaðar- og dýralæknaháskólanum í Kaupmannahöfn (1991).
Lilja Alfreðsdóttir settur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í málinu skipaði Bergþóru í embættið eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, sagði sig frá meðferð og töku ákvörðunar í því vegna vanhæfis.
Í nefndinni sátu Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Guðný Elísabet Ingadóttir, mannauðsstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess.
Umræða