Guðbjörgin verður áfram gul : Loforðið var skriflegt
Fyrir rúmu 21 ári sameinuðust hlutafélögin Hrönn hf sem gerði út Guðbjörguna ÍS og Samherji. Þá sagði forstjóri Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson, í Ríkisútvarpinu að Ísfirðingar þyrftu ekki að óttast að breytingin myndi draga úr umsvifum á Ísafirði.
Lét hann þau orð falla að Guðbjörgin yrði áfram gul, hún yrði áfram ÍS og að hún yrði áfram gerð út frá Ísafirði. Annað kom á daginn áður en langt var um liðið og öll fyrirheitin þrjú vour vanefnd.
Nú hefur fengist staðfest það sem Ásgeir heitinn Guðbjartsson hélt fram á sínum tíma, að Þorsteinn Már gaf eigendum Hrannar hf loforð um óbreytta útgerðarhætti og það sem meira er að loforðið er skriflegt.
Skjalið er enn til og birtist hér afrit af því. Þorsteinn Már Baldvinsson gerði meira en að ganga á bak orða sinna, hann vanefndi skriflega yfirlýsingu sína.
Núverandi sjávarútvegsráðherra er málið skylt. Hann var þá stjórnarformaður Samherja og jafnframt bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ. Sú staða átti drjúgan þátt í því að fá Ísfirðinga til þess að treysta nýjum eigendum og yfirlýsingum þeirra.
Áður en árið 1997 var liðið var Kristján Þór skyndliega horfinn úr stól bæjarstjóra og farinn norður, þar sem honum skaut upp í byrjun árs 1998 sem frambjóðandi og bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar um vorið.
Nú getur hann beitt sér fyrir úrbótum til þess að bæta Ísfirðingunum skaðann – ef hann vill.
Kristinn H. Gunnarsson