Þrír menn voru handteknir í Hlíðunum í Reykjavík í gærkvöldi grunaðir um þjófnað á reiðhjólum. Þeir voru færðir niður á lögreglustöð og vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Kona var handtekin við Ingólfstorg á níunda tímanum í gærkvöldi. Hún var í annarlegu ástandi og hafði verið að áreita fólk. Sökum ástands var hún vistuð í fangageymslu. Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn á þriðja tímanum í nótt í miðborginni. Í orðsendingu frá lögreglu segir að hann hafi verið að valda ónæði og því hafi hann verið vistaður í fangageymslu sökum ástands síns.
Lögreglan stöðvaði átta ökumenn í gærkvöldi og nótt. Þeir voru flestir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var einn þeirra grunaður um nytjastuld bifreiðar. Hann hafði einnig í hótunum við lögreglumann og beitti ofbeldi.
Loks var maður handtekinn í annarlegu ástandi við Reykjavíkurveg í Hafnafirði upp úr klukkan þrjú í nótt. Hann hafði verið að ráðast á annað fólk og var vistaður í fangageymslu.
Alls voru 75 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. 12 voru vistaðir í fangageymslu.