Meiri vernd fyrir þolendur mansals
● Alþingi hefur samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra – ákvæði um mansal í almennum hegningarlögum eru nú í samræmi við lagaþróun á Norðurlöndum
● Þolendur geta nú leitað og fengið sérhæfða hjálp í gegnum vefgátt Neyðarlínunnar, 112.is
● Unnið er að stofnun ráðgjafateymis innan lögreglunnar, undir forystu RLS
Í dag voru kynntar víðtækar aðgerðir gegn mansali á Íslandi. Aðgerðirnar byggja á
frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á ákvæði almennra hegningarlaga um
mansal, sem hefur nú verið samþykkt sem lög frá Alþingi. Með lögunum er vernd
þolenda mansals aukin, ekki síst kvenna og barna sem seld eru í vændi eða misnotuð
kynferðislega með öðrum hætti. Jafnframt er skerpt á vernd einstaklinga sem hafa sætt
vinnumansali og annarri hagnýtingu fólks í veikri stöðu með nauðungarvinnu,
nauðungarþjónustu, þrælkun eða ánauð.
Hægt að óska eftir ráðgjöf og hjálp á 112.is
Til að fylgja eftir lagasetningunni hefur upplýsingum um mansal verið bætt á vefgátt
Neyðarlínunnar 112.is gegn ofbeldi. Þar geta þolendur leitað sérhæfðrar hjálpar og
ráðgjafar og aðrir aflað sér upplýsinga um einkenni mansals og leitað úrræða ef grunur
er um að einstaklingur sé þolandi mansals. Hægt er að fá samband við neyðarvörð sem
virkjar viðbragð þeirra sem veita þolendum mansals aðstoð og leiðbeinir áfram til
þeirra úrræða sem standa þolendum og öðrum til boða þegar kemur að mansali.
Má þar einna helst nefna samhæfingarmiðstöð um mansal í Bjarkarhlíð.
Meginhlutverk hennar er að samræma verklag og viðbrögð þegar grunur leikur á
mansali, m.a. með því að kalla til nauðsynlega fagaðila, auk þess að sinna forvörnum
og fræðslu og stuðla að vitundarvakningu í samfélaginu um mansal.
Karl Steinar Valsson, yfirmaður hjá ríkislögreglustjóra segir mansal vera hluta af
skipulagðri brotastarfsemi sem sé einhver mesta ógn sem samfélög eru að glíma við í
dag, að undanskildum náttúruhamförum.
Setja á fót ráðgjafateymi lögreglunnar um mansal
Þá er unnið að stofnun ráðgjafateymis innan lögreglunnar undir forystu embættis
ríkislögreglustjóra sem hefur það hlutverk að vera öllum lögregluembættum landsins
til ráðgjafar þegar kemur að mansali, bæði hvað varðar greiningu mála sem og
rannsókn. Þá hefur hópurinn það markmið að miðla reynslu og þekkingu til
lögreglumanna og sækjenda á landinu öllu og halda utan um tölfræði og stöðuna um
mansal í íslensku réttarvörslukerfi.
Markvisst unnið gegn mansali
Með samþykki frumvarpsins hefur ákvæði almennra hegningarlaga um mansal verið uppfært í samræmi við lagaþróun á Norðurlöndum og alþjóðlega sáttmála. Þá er tryggt að íslensk stjórnvöld standi við þær skuldbindingar sem þau hafa tekist á hendur með því að fullgilda alþjóðlega samninga sem hafa það að markmiði að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi og mansali. Þá eru nýju aðgerðirnar meðal annars árangur af vinnu samráðshóps stjórnvalda um mansal sem hefur unnið að því að innleiða áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Áherslurnar voru fyrst kynntar í mars 2019 en komast nú til fullra framkvæmda.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Mansal er eitt alvarlegasta brot
á mannréttindum sem fyrirfinnst. Gerandinn beitir blekkingum og þvingun til að
viðhalda því ástandi að hagnýta aðra manneskju, oftast í fjárhagslegum tilgangi.
Breyting á ákvæði almennra hegningarlaga liðkar fyrir því að mál er varða grun
um mansal fái framgang innan réttarvörslukerfisins og gerendur sæti refsingu
fyrir þessi alvarlegu brot. Með því treystum við enn frekar vernd þolenda mansals,
ekki síst kvenna og barna.“
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar:
„112 er nú fyrsti viðbragðsaðili fyrir tilkynningar um mansal á Íslandi. Mansal er
alþjóðleg vá sem teygir anga sína til Íslands og hefur einna helst birst í okkar
samfélagi í formi vinnumansals. Mansal er talsvert algengara en við höldum.
Almenningur getur þjónað mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn mansali með því
að vera vel upplýstur um einkenni mansals, dæmisögur og úrræði. Við erum að
sýna almenningi birtingarmyndir mansals, hvernig maður þekkir einkenni mansals
og hvað við getum gert. Fólk getur kynnt sér þetta nánar á vefnum okkar
112.is/mansal.“
Karl Steinar Valsson, yfirmaður alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra:
„Mansal er hluti af skipulagðri brotastarfsemi sem er einhver mesta ógn sem
samfélög eru að glíma við í dag, að undanskildum náttúruhamförum. Til að
bregðast við sífellt flóknari brotum þar sem aðferðir brotamanna verða sífellt
þróaðri og alþjóðlegri verðum við að styrkja lögregluna faglega séð, auka
tæknilega getu og breyta lagaumgjörð málaflokksins. Þessar aðgerðir eru mikilvæg
skref í rétta átt.“