,,Enn einn sólarhringurinn að baki og þessi gefur hinum fyrri lítið eftir hvað varðar útkallsfjölda. Alls var farið í 138 sjúkraflutninga, þar af 50 verkefni tengd covid og 38 forgangsútköll,“ segir á vef slökkviliðsins.
Útköll á slökkvibifreiðar voru sex talsins og kannski þar helst að nefna eld í risíbúð í Hafnarfirði í nótt sem greiðlega gekk að slökkva. Um 19:00 í gær fengum við tilkynningu um slasaða manneskju í vesturhlíðum Úlfarsfells. Ekki var um meiriháttar slys var að ræða en afar erfitt aðgengi var að sjúklingi.
Því þurftum við að leita liðsinnis björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar auk þyrlu Landhelgisgæslunnar til að aðstoða við að koma sjúklingi á sjúkrahús.
Samvinna björgunaraðila í slíkum verkefnum er lykilatriði til að skjólstæðingar okkar fái sem besta þjónustu. Afar krefjandi aðstæður sköpuðust í fjallinu vegna þoku eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Njótið dagsins og farið varlega.