,,Gullæðið er þegar hafið“
Verði svo kallaður Orkupakki 3 samþykktur á Alþingi í dag mun þetta verða einn svartasti dagurinn í sögu landsins þegar kemur að auðlindanýtingu og arðráninu sem fylgir í kjölfarið.
Vissulega leggur þessi löggjöf ekki skyldur á stjórnvöld að leggja til landsins sæstreng (það er og hefur alltaf verið „strámaður“ OP3 sinna), en hún leggur augljóslega þær skyldur á stjórnvöld að standa ekki í vegi fyrir slíkum áformum. Og ekki bara það, heldur verður íslenskum stjórnvöldum skylt að greiða fyrir slíkum áformum. Þetta er ótvírætt og stendur skýrum stöfum í 8. grein kafla laganna um þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands.
Rétt er að minna á að verndarflokkurinn, heitandi þessu fallega nafni, hefur nákvæmlega ekkert verndargildi, þar sem ekki eitt einasta svæði í þeim flokki hefur verið friðað og Orkustofnun lítur því áfram á þær virkjanir sem virkjanakosti.
Þessi dagur mun því líklega verða sá svartasti sem íslensk náttúra lifir, því það er augljóst af öllum þeim fjölda orkufyrirtækja í einkaeigu sem hafa verið stofnuð nýlega, að gullæðið er þegar hafið. Vesalings Íslensk náttúra segi ég nú bara, að þurfa að burðast með þessa þjóð.
https://gamli.frettatiminn.is/2019/08/29/skilar-orkupakki-3-625-milljonum-i-vasa-utanrikisradherra/
https://gamli.frettatiminn.is/2019/09/01/motmaeli-gegn-orkupakka-3-a-austurvelli/