Rekstrarhagnaður Samherja hf. nam 9,9 milljörðum króna á árinu 2022 og jókst um rúmlega 800 milljónir kr. milli ára. Hagnaður af rekstri samstæðu Samherja hf., þegar tekið hefur verið tillit til afkomu hlutdeildarfélaga og fjármagnsliða, nam 14,3 milljörðum króna eftir skatta en var 17,8 milljarðar króna á árinu 2021.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ársreikningi Samherja hf. fyrir árið 2022 sem samþykktur var á aðalfundi félagsins hinn 24. ágúst síðastliðinn. Samherji birti tilkynningu um þetta á vef félagsins í morgun.
Nokkrar lykiltölur fyrir árið 2022 eru birtar í tilkynningunni:
- Samherji seldi afurðir fyrir 54 milljarða króna og voru sölutekjur vegna afurða nær óbreyttar milli ára
- Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 9,9 milljörðum króna en var 9 milljarðar króna á árinu 2021
- Tekjur af áhrifum hlutdeildarfélaga námu 6,2 milljörðum króna en meðtalin er tekjufærsla að fjárhæð 3 milljarðar króna vegna lækkunar á eignarhluta Samherja í Síldarvinnslunni hf. úr 32,6% í 30,1%. Þá voru tekjufærðir um 1,8 milljarðar vegna sölu á eignarhlut í Samherja Holding ehf
- Eignir Samherja hf. í árslok námu 107,7 milljörðum króna og eigið fé var 79,8 milljarðar króna
- Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var 74%. Eiginfjárhlutfallið hélst óbreytt milli ára og undirstrikar traustan efnahag félagsins
- Á árinu 2022 voru að meðaltali 686 ársverk hjá samstæðunni en þau voru 807 árið 2021
- Heildarlaunagreiðslur samstæðunnar á árinu 2022 námu samtals um 9 milljörðum króna
Framangreindar upphæðir í rekstrarreikningi eru umreiknaðar úr evrum í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2022 og upphæðir í efnahagsreikningi á lokagengi ársins 2022.
Góður gangur í veiðum, vinnslu og sölu
- Á árinu 2022 gerði samstæðan út fimm ísfisktogara, eitt frystiskip og tvö uppsjávarskip. Þegar veiðiheimildir nýs fiskveiðiárs lágu fyrir í september var ljóst að bregðast þurfti við samdrætti í heimildum, einkum þorski. Því var ákveðið að leggja einu skipi tímabundið.
- Heildarafli ísfisktogaranna dróst saman um tæp 3.200 tonn frá fyrra fiskveiðiári. Þrátt fyrir samdráttinn var unnið alla daga í fiskvinnsluhúsum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa.
Góð afkoma
„Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., gerði grein fyrir uppgjörinu á aðalfundinum og nefndi í ræðu sinni að í heild hefði afkoman verið góð á árinu 2022. Sumt hafi gengið betur en árið á undan en annað ekki. Uppgjörið litaðist að hluta til af þeim breytingum sem hefðu orðið á efnahagsreikningi Samherja hf. á árinu en þær veigamestu fólust í því að ýmsar eignir voru færðar til félagsins Kaldbaks ehf,“ segir í tilkynningunni.