-0.2 C
Reykjavik
Þriðjudagur - 7. febrúar 2023
Auglýsing

Brýnt að hækka skilagjald vegna förgunar ökutækja

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Útlit er fyrir að nokkru færri bílum verði skilað til förgunar í ár en síðustu ár þegar metfjöldi bifreiða var endurunninn. Samkvæmt áætlun gætu um tíu þúsund bílar komið til meðhöndlunar í ár, en þeir voru 11.635 í fyrra. Þetta kemur fram í umfjöllun í Morgunblaðsins í dag.
Á heimasíðu Úrvinnslusjóðs segir að greiða skuli eiganda ökutækis skilagjald, 20.000 krónur, eftir afhendingu til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, hafi ökutæki verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki. Endurgreiðslan hefur verið óbreytt í nokkur ár en úrvinnslugjaldið sem lagt er á bíleigendur árlega hækkaði um 157% um síðustu áramót eða úr 700 krónum í 1.800 krónur.
Að mati FÍB er lag fyrir stjórnvöld að hækka skilagjald vegna förgunar verulega, allavega tímabundið, til að örva viðskipti með nýja og nýlega bíla.  Með þessari aðgerð er hægt að auka hlutfall öruggari og minna mengandi bíla í umferð. Nýlegir bílar eru búnir umtalsvert betri öryggisbúnaði en eldri árgerðir.  Nýrri bílar eyða minna eldsneyti og menga verulega minna en eldri. Síðustu misserin hefur framboð raf-, tengiltvinn- og tvinnbíla stóraukist á markaði enda er hlutfall þessara ökutækja um 55% af heildarsölunni það sem af er ári.
Hærra skilagjald mun skila fleiri bílum með lakari öryggisbúnað og meira mengandi til endanlegrar förgunar.  Aðgerðin mun verja störf í bílgreininni og auka hlutfall umhverfismildari og öruggari ökutækja í umferð. Þetta er þjóðhags- og lýðheilsulega jákvætt.  Fjölgun öruggari ökutækja í umferð mun auka umferðaröryggi allra vegfarenda og álag á heilbrigðiskerfið minnkar.  Minni mengun dregur einnig úr neikvæðum lýðheilsuáhrifum samgangna á landi.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að meðalaldur ökutækja sem skilað er til úrvinnslu hefur farið hækkandi undanfarin ár.  Samkvæmt yfirliti frá 2007 hefur meðalaldur bíla sem skilað er til endurvinnslu aldrei verið hærri en fyrstu sex mánuði þessa árs eða 17,5 ár. Fjögur ár þar á undan var meðalaldurinn um 17 ár og fór lægst í 13,7 árið 2008.
Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri úrvinnslusjóðs segir í Morgunblaðinu að mikill innflutningur hafi verið á nýjum bílum á árunum 2015-2019 og samtímis hafi skil á gömlum ökutækjum aukist. Áætlanir hafi gert ráð fyrir að heldur myndi draga úr skilum á bifreiðum til endurvinnslu í ár og það hafi gengið eftir. Síðan hafi kórónufaraldurinn bæst við og þrengst um hjá mörgum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, og fólk haldið að sér höndum við kaup á nýjum bílum. Þetta sé í samræmi við það sem gerðist í kjölfar efnahagshrunsins fyrir rúmum áratug, en þá dró verulega úr skilum á gömlum ökutækjum.
Ólafur segir algengt að þegar sveiflur verði í efnahagslífinu lækki meðalaldur bíla á götunum þegar vel gangi, en hækki þegar verr ári. Í fyrra var 11.635 bílum skilað til endurvinnslu og fjölgaði bílunum um 243 frá árinu á undan og um 2.152 bíla frá 2017. Ólafur segir áætlanir gera ráð fyrir að um tíu þúsund bílum verði skilað til úrvinnslu í ár. Fæstum bílum var skilað til förgunar 2010 og 2011, tæplega þrjú þúsund bílum hvort ár. Í ár var talsvert færri bílum komið til úrvinnslu fyrstu fjóra mánuði þessa árs en síðustu ár.
Í maí og júní kom hins vegar kippur í skil á bílum og voru þeir mánuðir svipaðir og sömu mánuðir 2019. Ólafur segir að þetta sé í samræmi við síðustu ár, en skil hafi aukist yfir sumarmánuðina. Úrvinnslusjóður greiðir skráðum eiganda bíls sem farið er með til förgunar og afskráningar 20 þúsund króna skilagjald.
Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu sem uppfærðar voru 26. september  eru nýskráningar fólksbíla það sem af er ári alls 7.112, sem er um 27,3%  samdráttur miðað við sama tíma 2019. Af þessum bílum eru 74,5%  til almennrar notkunar og 24,7% til bílaleiga.