Þrettán íslenskir lífeyrissjóðir ætla að fjárfesta fyrir um 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030.
Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) og kynntu hana formlega í morgun á fundi með norrænum forsætisráðherrum í norræna skálanum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fram fer í Glasgow í Skotlandi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnaði í ræðu sinni frumkvæði norrænu lífeyrissjóðanna og lagði áherslu á mikilvægi réttlátra umskipta í öllum aðgerðum okkar gegn loftslagsvánni.
Íslensku lífeyrissjóðirnir bætast með þessu í hóp fjölda norrænna lífeyrissjóða sem hafa gefið út sambærilegar yfirlýsingar á síðustu tveimur árum. Með yfirlýsingunni nú staðfesta íslensku sjóðirnir þrettán vilja til að stórauka grænar fjárfestingar sínar og styðja þannig við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Þar er meðal annars horft til ákvæða Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Í september í fyrra undirrituðu ráðherrar ríkisstjórnarinnar og fulltrúar lífeyrissjóða, fjármálastofnana, vátryggingafélaga og fjárfestingaaðila sameiginlega viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar en sú viljayfirlýsing var unnin í samstarfi forsætisráðuneytisins, Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fjármálafyrirtækja. Viljayfirlýsingin í dag undirstrikar einbeittan vilja þessara aðila til að beina fjármagni sínu í grænar fjárfestingar og aðgerðir gegn loftslagsvánni.