80% barna voru laus í bifreiðum fyrir 34 árum – nú eru þau 1%
Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar sem Slysavarnafélagið Landsbjörg og Samgöngustofa gerðu fyrr á árinu um öryggi barna í bílum. Í könnuninni er gerð athugun á því hvort notaður sé öryggisbúnaður fyrir barnið eða ekki og hvernig búnað er notast við. Einnig er skráð hvort að ökumaður noti bílbelti eða ekki.
Helstu atriði:
Börn á aldrinum 0-14 ára eru 9% allra sem slasast í umferðinni og er barn sem er farþegi í bíl í meirihluta þessara slysa.
20 börn voru alveg laus í bílum og þ.a.l. í mikilli hættu.
Það fer ekkert foreldri með barn sitt heim af Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans án þess að fá fræðslu um rétta notkun öryggisbúnaðar í bílum.
83 börn voru einvörðungu í öryggisbeltum sem telst ekki fullnægjandi búnaður með tilliti til hæðar og þyngdar barnsins.
1985 voru 80% barna laus í bílum en árið 2019 eru þau 1%.
Ása Ottesen fullyrðir að barnabílstóll hafi forðað systurdóttur hennar frá alvarlegum skaða í bílslysi í sumar.
Á 18 leikskólum af 57 voru öll börn í réttum öryggisbúnaði.
Ökumenn á Austurlandi standa sig best í notkun öryggisbúnaðar fyrir börn.
80% barna voru laus í bifreiðum fyrir 34 árum – nú eru þau 1%
Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 34 ár. Hér má nálgast niðurstöður könnunarinnar 2019 þar sem gerð var athugun á 2.088 börnum. Að þessu sinni voru 57 leikskólar víða um land heimsóttir og athuguðu starfsmenn Landsbjargar og Samgöngustofu hvernig búið var um börn í bílum þegar komið var með þau til skólans.
Könnunin staðfestir mjög góðan árangur sem helst má sjá í því að árið 1985 voru 80% barna í engum búnaði – ekki einu sinni öryggisbeltum – en nú á þessu ári eru þau aðeins 1%. 10 ára meðaltal alvarlega slasaðra barna og látinna í umferðinni er nú 17,5 en árið 1996 var meðaltalið 39,6. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun er það hinsvegar áhyggjuefni að 20 börn voru alveg laus í bílum og 83 voru í öryggisbeltum sem telst ekki nægjanlega öruggur búnaður með tilliti til hæðar þeirra og þyngdar.
Vitnisburður um þær áherslur sem lagðar á öryggi barna í bílum í dag er að á Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans fer ekkert foreldri heim með barn sitt nema að undangenginni fræðslu um rétta notkun öryggisbúnaðar í bílum. Sú fræðsla felst m.a. í því að kenna foreldrum að festa beltin rétt, að þess sé gætt að þau séu ekki snúin, að þau séu ekki of slök eða of strekkt, að stóllinn sé ekki skaddaður eða of gamall o.s.frv.
Þessi fræðsla er tryggð öllum foreldrum sama hverrar þjóðar þeir eru. Nánari upplýsingar um þetta veitir Hilda Friðfinnsdóttir yfirljósmóðir í síma 825-9594, póstfang: hildafri@landspitali.is .
Er slakað á örygginu þegar barnið er orðið eldra?
Öll börn eins árs og yngri eru í réttum búnaði og hið sama á við um 95-99% barna tveggja til fjögurra ára og meira en 91% fjögurra til fimm ára barna. Það vekur athygli að aðeins 87,9% sex ára barna reyndust vera í réttum búnaði sem þýðir að um 12% sex ára barna eru eingöngu í bílbelti eða engum öryggisbúnaði. Það er ófullnægjandi þar sem barn lægra en 135 cm á hæð skal ávallt vera í sérstökum öryggis- og verndarbúnaði sem hæfir hæð þess og þyngd. Öryggisbelti duga ekki.
Hvaða búnað skal nota?
Það eru ýmsar útgáfur og gerðir af öryggisbúnaðir til fyrir börn. Gerð þess búnaðar sem velja skal og hæfir best til að tryggja öryggi barnsins ræðst af hæð þess og þyngd. Samgöngustofa er með á vef sínum mikið fræðsluefni á íslensku og fjölda annarra tungumála um öryggi barna í bílum. Hér má nálgast það efni.