Stjórnsýsla TR er með ólíkindum
Tryggingastofnun ríkisins fer ekki eftir lögum frá Alþingi sem gengu í gildi um áramótin, með neikvæðum afleiðingum fyrir marga lífeyrisþega. Samkvæmt lögunum eiga þessar uppbætur vegna reksturs bifreiðar og uppbætur á lífeyri að vera undanþegnar skattskyldu frá og með 1. janúar á þessu ári.
Ljóst er að þetta hefur áhrif á fjölda manns og skerðir afkomu þeirra í þessum fyrsta mánuði ársins.
Öryrkjabandalag Íslands hafði samband við Tryggingastofnun fyrir jól og fékk þau svör 27. desember að stofnunin hefði ekki fengið upplýsingar um „þessa skattbreytingu fyrr en stuttu fyrir jól. Við þurfum að gera breytingar á greiðslukerfi okkar. Það náðist ekki að breyta greiðslum fyrir 1. janúar,“ segir meðal annars í svari TR við fyrirspurn ÖBÍ.
Þar kemur einnig fram að TR muni ekki framfylgja lögunum um skattleysi þessara uppbóta fyrr en í febrúar.
Þetta er vægast sagt undarleg – satt að segja ótrúleg – stjórnsýsla.
Tryggingastofnun ríkisins hefur haft nægt svigrúm til þess að laga greiðslukerfi sín að nýjum lögum. Þess utan þá var Tryggingastofnun í hópi þeirra aðila sem boðið var að veita umsögn um þessi lög meðan málið var til umfjöllunar á Alþingi. Þá voru lögin samþykkt sem lög frá Alþingi 7. desember. Það er ekki eins og TR hafi skort tíma til að framkvæma lögin og það stenst enga skoðun að þetta hafi komið Tryggingastofnun á óvart.
Við þetta má bæta að fólk munar um hverja krónu í heimilisrekstrinum. Eins og sjá má á þessu yfirliti frá TR er ekki eins og fólk sem reiðir sig á stofnunina syndi í peningum og þetta ættu stjórnmálamenn sömuleiðis kynna sér:
Örorkulífeyrir og endurhæfingarlífeyrir:
- Örorkulífeyrir er að hámarki 46.481 kr. á mánuði.
- Tekjutrygging er að hámarki 148.848 kr. á mánuði.
- Aldurstengd örorkuuppbót er að hámarki 46.481 kr. á mánuði (100%).
- Heimilisuppbót er að hámarki 50.312 kr. á mánuði.
- Lágmarksframfærslutrygging (vegna sérstakrar uppbótar til framfærslu) er:310.800 kr. á mánuði hjá þeim sem fá greidda heimilisuppbót.
247.183 kr. á mánuði hjá öðrum.
Og við þetta má bæta að þeir sem fá greidda heimilisuppbót eru í miklum minnihluta, innan við þriðjungur.