Hugleiðingar veðurfræðings – ( Gular viðvaranir eru neðst á síðunni )
Veðrið á landinu í dag er tvískipt. Á Norður- og Austurlandi er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðvestanátt með snjókomu, éljum eða skafrenningi. Á Suður- og Vesturlandi hafa verið él í nótt, en þar fer að lægja og stytta upp og eftir hádegi má búast við hinu fallegasta vetrarveðri á þeim slóðum. Hrollkaldur heimskautaloftmassi er í heimskókn hjá okkur og áður en 3. janúar er liðinn munu væntanlega hafa mælst tveggja stafa frosttölur í öllum landshlutum.
Einhverjir gætu verið að vonast eftir rólegu veðri um helgina til að leika sér í snjónum, en veðurguðirnir virðast hafa aðrar fyrirætlanir. Á morgun (laugardag) er útlit fyrir að gangi í heiðarlegan suðaustan storm með úrkomu á öllu landinu. Úrkoman byrjar sem snjókoma, en breytist síðan í slyddu eða rigningu á láglendi því það hlýnar með suðaustanáttinni. Eftir storminn snýst í suðvestan strekking með skúrum og sá snúningur á sér stað fyrst á Reykjanesi uppúr kl. 15 og einnig annars staðar á landinu næstu klukkustundirnar þar á eftir.
Veðurhorfur á landinu
Gengur í norðvestan 13-20 m/s í dag með snjókomu eða éljum á Norður- og Austurlandi. Hægari vindur og léttir til á Suður- og Vesturlandi. Lægir og styttir upp á öllu landinu í kvöld. Frost 3 til 13 stig.
Gengur í suðaustan 18-25 á morgun með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Snýst í suðvestan 10-18 seinnipartinn með skúrum eða slydduéljum sunnan- og vestanlands. Hlýnandi veður, hiti 2 til 7 stig undir kvöld.
Spá gerð: 03.01.2020 05:39. Gildir til: 04.01.2020 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Suðvestan 13-20 m/s og skúrir eða él, en þurrt og bjart á Austurlandi. Hiti 0 til 4 stig. Hægari vindur og úrkomuminna seinnipartinn.
Á mánudag:
Breytileg átt, hvass vindur á köflum. Rigning eða slydda og hiti 1 til 6 stig, en snjókoma og kólnar síðdegis.
Á þriðjudag:
Austlæg eða suðaustlæg átt rigning eða slydda í flestum landshlutum. Hiti um og undir frostmarki. Snýst í allhvassa suðvestanátt með éljum síðdegis, fyrst suðvestantil, en bjart á Norður- og Austurlandi með frosti að 5 stigum.
Á miðvikudag og fimmtudag:
Ákveðin suðvestanátt með éljagangi, en léttskýjað á austanverðu landinu. Frost 1 til 7 stig.
Spá gerð: 03.01.2020 07:40. Gildir til: 10.01.2020 12:00.
https://www.vedur.is/vidvaranir
https://www.vedur.is/vidvaranir