Jólavenjur Íslendinga
Ýmsir þættir sem snúa að jólahaldi landsmanna voru kannaðir í Þjóðarpúlsi Gallup og niðurstöðurnar bornar saman við fyrri ár, en könnunin hefur verið gerð síðastliðinn áratug. Sumar hefðanna hafa tekið breytingum síðastliðin ár en ljóst er að COVID-19 hefur talsverð áhrif á jólahefðir landsmanna í ár.
Jólagjafir
Nær allir fullorðnir landsmenn gefa jólagjafir í ár, eða 98%. Þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur eru ólíklegri til að gefa jólagjafir en þeir sem hafa hærri tekjur, en 91% þeirra sem hafa lægstar tekjur gefa jólagjafir.
Hitta fjölskyldu/vini
Færri hittu fjölskyldu og/eða vini yfir jólin en undanfarin ár, eða 94% á móti 98% síðustu ár. Gera má ráð fyrir að það skýrist af sóttvarnarreglum og/eða varúðarráðstöfunum vegna COVID-19. Fólk milli þrítugs og fertugs er líklegast til að hittast fjölskyldu og vini yfir jólin í ár en fólk yfir sextugu er ólíklegast til þess.
Jólaskraut
Flestir eru með jólaseríur eða annað jólaskraut innandyra, eða 94%, en þrír af hverjum fjórum eru með slíkt utandyra og er það hærra hlutfall en stundum áður. Konur eru líklegri en karlar til að vera með jólaskraut innandyra, en fólk undir þrítugu er ólíklegra til þess en þeir sem eldri eru. Íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að vera með jólaskraut innandyra en íbúar höfuðborgarsvæðisins, en þeir sem eru með lægri fjölskyldutekjur eru ólíklegri til að vera með skraut innandyra en þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur.
Fólk yfir fertugu er líklegra til að vera með jólaskraut utandyra en fólk undir fertugu, og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem eru með minni menntun eru líklegri til að vera með skraut utandyra en þeir sem lokið hafa háskólaprófi, en fólk er líklegra til að vera með skraut utandyra eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur.
Jólatré
Flestir eru með jólatré, eða 83%. Nær 58% eru með gervitré og 27% með lifandi tré, en þeim hefur farið jafnt og þétt fækkandi síðasta áratug sem eru með lifandi tré. Fólk milli fertugs og sextugs er líklegra en aðrir til að vera með jólatré, og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru að jafnaði líklegri til að hafa jólatré en þeir sem hafa lægri tekjur. Þeir sem búa á landsbyggðinni eru talsvert líklegri til að vera með gervitré en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu, og þeir sem hafa eingöngu lokið grunnskólaprófi eru líklegri til þess en þeir sem hafa meiri menntun að baki.
Fólk milli fertugs og sextugs er líklegra en aðrir til að vera með lifandi jólatré, og íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líklegri til þess en íbúar landsbyggðarinnar. Fólk sem hefur lokið háskólaprófi er líklegra til að vera með lifandi jólatré en þeir sem hafa minni menntun að baki, og fólk með hærri fjölskyldutekjur er að jafnaði líklegra til þess en þeir sem hafa lægri tekjur.
Jólamatur
Þrír af hverjum fjórum segjast sjá um, eða taka þátt í, að elda jólamatinn á aðfangadag. Konur segjast frekar sjá um eða taka þátt í að elda matinn en karlar, og fólk milli fertugs og sextugs frekar en þeir sem yngri eða eldri eru.
Bakstur
Mun fleiri baka smákökur fyrir eða um jólin í ár en undanfarin ár, eða næstum 71% miðað við um sex af hverjum tíu undanfarin ár. Konur baka frekar smákökur en karlar, og fólk er líklegra til að baka fyrir jólin eftir því sem það er yngra. Þannig baka um 82% fólks undir þrítugu fyrir jólin en 57% fólks yfir sextugu. Þeir sem hafa lægstar fjölskyldutekjur eru ólíklegri til að baka fyrir jólin en þeir sem hafa hærri tekjur.
Góðgerðir
Tæplega 69% styrkja góðgerðarmálefni fyrir eða um jólin. Konur gefa frekar til góðgerðarmála en karlar, og fólk er líklegra til að gefa til góðgerðarmála eftir því sem það er eldra. Þannig gefa um 87% fólks yfir sextugu til góðgerðarmála á móti 32% fólks undir þrítugu. Þeir sem hafa háskólapróf eru líklegri til að gefa til góðgerðarmála en þeir sem hafa minni menntun að baki. Þeir sem hafa lægstar fjölskyldutekjur eru ólíklegri til að gefa til góðgerðarmála, en að öðru leyti er ekki munur eftir því hve háar fjölskyldutekjur fólk hefur.
Látnir ástvinir
Hátt í 66% fara í kirkjugarð að vitja leiðis yfir jólin í ár og er það hærra hlutfall en stundum áður. Konur fara frekar í kirkjugarðinn en karlar, og fólk yfir fimmtugu frekar en þeir sem yngri eru.
Aðventukrans/aðventuljós
Næstum 62% eru með aðventukrans með fjórum kertum á heimilinu um jólin. Næstum 45% eru með aðventuljós með sjö ljósum og er það svipað og undanfarin ár, en þeim hefur fækkað talsvert síðan fyrir áratug þegar 62% voru með aðventuljós. Fólk milli fertugs og fimmtugs er líklegra til að hafa aðventukrans en þeir sem yngri eða eldri eru, og fólk er líklegra til að hafa aðventukrans eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur. Fólk er líklegra til að vera með aðventuljós eftir því sem það er eldra, og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en íbúar höfuðborgarsvæðisins.
Jólakort
Rúmlega 52% senda rafrænt jólakort eða rafræna jólakveðju og nær 21% sendir jólakort með hefðbundnum pósti. Þarna hefur orðið mikil breyting síðastliðinn áratug. Fyrir tíu árum sendu fjórir af hverjum tíu rafræna jólakveðju og þeim hefur fækkað jafnt og þétt sem senda jólakort í bréfpósti, en fyrir tíu árum gerðu þrír af hverjum fjórum það. Konur senda frekar rafræna jólakveðju en karlar.
Fólk yfir fertugu er líklegra til að senda rafræna jólakveðju en þeir sem yngri eru, og fólk undir þrítugu er ólíklegast til þess. Fólk með lægstu fjölskyldutekjurnar er ólíklegra til að senda rafræna jólakveðju en þeir sem hafa hærri tekjur. Konur senda líka frekar jólakort með bréfpósti en karlar, fólk er líklegra til að senda jólakort í pósti eftir því sem það er eldra og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en höfuðborgarbúar.
Skata
Einn af hverjum þremur borðaði skötu fyrir jólin, eru það færri en stundum áður og hugsanlegt að sóttvarnaraðgerðir spili þar inn í. Karlar eru líklegri en konur til að borða skötu fyrir jólin, og fólk er líklegra til þess eftir því sem það er eldra. Íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að borða skötu en höfuðborgarbúar, og þeir sem eru eingöngu með grunnskólapróf frekar en þeir sem hafa meiri menntun að baki.
Jólaföndur
Ríflega 31% fullorðinna föndrar fyrir eða um jólin. Konur föndra frekar en karlar, og svarendur eru líklegri til að föndra eftir því sem þeir eru yngri.
Piparkökumálun
Liðlega 31% máluðu piparkökur. Fólk milli þrítugs og fertugs er líklegast til að mála piparkökur, en fólk yfir sextugu langólíklegast til þess. Þeir sem hafa lægstar fjölskyldutekjur eru ólíklegastir til að mála piparkökur en þeir sem hafa hæstar tekjur líklegastir.
Laufabrauð
Rúmlega 24% skáru út eða steiktu laufabrauð fyrir jólin. Íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en höfuðborgarbúar, og þeir sem hafa eingöngu lokið grunnskólamenntun frekar en þeir sem hafa meiri menntun að baki. Þeir sem hafa lægstar fjölskyldutekjur eru ólíklegri til þess en þeir sem hafa hærri tekjur.
Hlaðborð/tónleikar/kirkjur
Sóttvarnartakmarkanir hafa vægast sagt haft mikil áhrif á þær jólahefðir landsmanna að fara á tónleika og á jólahlaðborð. Tæplega 17% fara á tónleika fyrir eða um jólin í ár, en í fyrra var hlutfallið 45%. Um einn af hverjum tíu fer á jólahlaðborð fyrir eða um jólin í ár, en síðustu ár hefur um helmingur landsmanna gert það. Sóttvarnartakmarkanir hafa líka haft áhrif á kirkjusókn en 12% fóru í kirkju fyrir eða um jólin. Það eru færri en undanfarin ár og helmingi færri en í fyrra.
Fólk milli fimmtugs og sextugs er líklegra til að fara á tónleika en þeir sem yngri eða eldri eru, og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Karlar fara frekar á jólahlaðborð en konur. Fólk er líklegra til að fara í kirkju fyrir eða um jólin eftir því sem það er eldra, og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en höfuðborgarbúar.
Konfekt
Liðlega einn af hverjum tíu bjuggu til konfekt fyrir jólin. Konur búa frekar til konfekt en karlar.
Jólaball
Jólaböll, eða jólatrésskemmtanir fyrir börn, eru annað sem sóttvarreglur komu að miklu leyti í veg fyrir. Um 3% fóru á jólaball í ár en síðastliðin ár hefur um fjórðungur gert það. Fólk undir fertugu er líklegra til að fara á jólaball en þeir sem eldri eru, og íbúar landsbyggðarinnar líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins.
Spurt var:
Vinsamlegast merktu við þau atriði sem eiga við um þig fyrir eða um jólin í ár. Atriðin birtust í tilviljunarkenndri röð og m á sjá þau á myndinni á fyrstu síðunni.
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 14. – 27. desember 2020. Þátttökuhlutfall var 51,3%, úrtaksstærð 1.600 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.
Útgefið af: Gallup Lynghálsi 4, 110 Reykjavík Sími: 540 1200