,,Talsvert hefur dregið úr frostinu syðst á landinu og eru litlar líkur á að við munum sjá svipaðar tölur þar aftur í bili. Hins vegar sleppir kuldaboli ekki takinu fyrir norðan alveg strax og ef eitthvað hefur hann hert tökin þar. Á þriðjudaginn verður mesta kuldakastið liðið hjá og við taka mildari tímar, allavega í bili. Samt mun hitinn vera lengst af plús/mínus 3 gráður hjá flestum, þótt vissulega mælist bæði hærri og lægri hita á milli enda sjást oft staðbundin áhrif eins og nýleg stöð í Víðidal í Reykjavík ber með sér.
Þar myndast oft svokallaður kuldapollur þar sem kalt loft sígur niður í lægðir en enginn vindur er til að blanda það við mildara loft og með snjó á jörðu verður köld útgeislun snævar enn til að auka áhrifin. Þannig aðstæður hafa myndast nokkuð víða a landinu að undanförnu en nú sem sagt sér fyrir endann á mesta kuldakaflanum.“ Segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Veðurhorfur á landinu
Austlæg eða breytileg átt, gola eða kaldi. Þurrt N-til á landinu og talsvert frost. Víða dálítil snjókoma annars staðar, en styttir upp SV-lands í kvöld og úrkomulítið á Austfjörðum og SA-landi síðdegis á morgun. Frost 0 til 10 stig. Vaxandi austanátt annað kvöld með éljum S-lands.
Spá gerð: 03.02.2019 15:07. Gildir til: 05.02.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Gengur í austan 15-23 m/s með snjókomu, en slyddu eða rigningu við ströndina, einkum SA-lands. Hægari vindur og þurrt N-til á landinu, en dálítil snjókoma og hvessir með kvöldinu. Frost 0 til 5 stig síðdegis, en 0 til 5 stiga hiti sunnan heiða.
Á miðvikudag:
Norðaustan 10-18 m/s. Snjókoma og síðar él N- og A-lands, en yfirleitt þurrt á S- og V-landi. Hiti 0 til 5 stig syðst, annars 0 til 5 stiga frost.
Á fimmtudag og föstudag:
Norðaustanátt og él, en léttskýjað S- og V-lands. Frost 0 til 8 stig.
Á laugardag:
Útlit fyrir norðanátt með snjókomu eða éljum N- og A-lands. Áfram kalt.
Spá gerð: 03.02.2019 08:31. Gildir til: 10.02.2019 12:00.