Jón Baldvin var gestur Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Silfrinu í dag og er þetta fyrsta viðtalið sem hann veitir frá því að konur stigu fram í janúar og sökuðu hann um kynferðislega áreitni og stofnuð var facebooksíða undir myllumerkinu meeto þar sem að hópur af konum slá skjaldborg um meint fórnarlömb Jóns Baldvins.
Rætt var um sakargiftir á hendur honum af hálfu dóttur hans, Aldísar Schram og sagði Jón Baldvin þetta um þær sakargiftir m.a.
,,Má ég segja hvaða sakir Aldís hefur borið á mig? Má ég segja það, má ég telja það upp? -Já. Hún hefur borið mig þeim sökum að ég hafi beitt kynferðislegri áreitni eða haft kynmök við tengdamóður mína, sjálfa sig, dóttur sína, systur sínar, dætur mínar tvær, systur Bryndísar konu minnar og systurdóttur.“ Þá segir þáttarstjórnandinn, ,,já en þar af hafa þrjár af þessum konum þegar borið þig þessum sökum í fjölskyldunni.“
Jón Baldvin sagði það ekki rétt en þá svaraði Fanney Birna, ,,jú, Aldís, Margrét og Guðrún.“ Þá sagði Jón Baldvin m.a. ,,þetta eru órar úr sjúku hugarfari, dettur þér í hug, núna þegar að þú horfir á mig að þessar sakir séu sannar? Ég þekki engan mann sem að trúir því að þessar sakir séu sannar.“
,,Eru þá allar þessar konur haldnar sömu órum og Aldís?“ Spurði Fanney þá og Jón Baldvin fór þá löngu máli um málavexti og ástæður ásakana lið fyrir lið og að hann hefði ekki farið að svara þeim fyrr en að konurnar hefðu komið fram undir nafni.
Fjórar konur sögðu í viðtali við Stundina í janúar að Jón Baldvin hefði áreitt þær kynferðislega, þar af voru tvær þeirra nemendur hans í Hagaskóla en hinar tvær tengjast honum fjölskyldu- eða vinaböndum. Síðan hafa fleiri konur stigið fram. Elstu frásagnirnar eru frá sjöunda áratugnum og sú nýjasta frá því í fyrra eins og að ofan greinir. Fjöldi kvenna hefur gengið í #metoo hóp á Facebook þar sem fjallað er um Jón Baldvin og eru í hópnum meintir þolendur, aðstandendur þeirra og stuðningsfólk.
Jón Baldvin lýsti sig saklausan af öllum sakargiftum nema einni, þar sem að liggur fyrir sönnun í formi skriflegrar kynferðislegrar áreitni gagnvart frænku sinni, Guðrúnu Harðardóttur. Hann segist hafa sent það bréf eftir að hafa drukkið bjór á flugvelli þar sem að hann var veðurtepptur í níu klukkutíma. Hann segir að öll umfjöllun um málin séu skrumskælingar og þvættingur og að hann sé að fara að skrifa bók um öll þessi mál þar sem að þau séu svo viðamikil og að hann auglýsi hér með eftir útgefanda.
Þá hefur Guðrún Harðardóttir tjáð sig um viðtalið á facebook síðu sinni og segir hún sem er umrædd frænka Jóns Baldvins, að viðtalið við Jón í Silfrinu hafa afhjúpað veruleikafirringu hans og segir hann hafa farið með staðreyndavillur í viðtalinu.
Er frásögn hennar hér að neðan:
,,Mig langar til að byrja á því að þakka RÚV fyrir að fá Jón Baldvin í viðtal og halda þannig umræðunni lifandi. Af gefnu tilefni langar mig að benda á nokkrar staðreyndarvillur sem hann fór með: Jón Baldvin talaði ítrekað um að eina kæran sem hann hefði fengið á sig hefði verið felld niður. Það er rétt, en ástæðan er sú að að brotin áttu sér stað í Venezuela. Í Venezuela þurfa kynferðisafbrot að gerast á almannafæri til að hægt sé að kæra. Ég sat ein í herbergi mínu þegar ég las bréfin og því var málið látið niður falla. Sú niðurstaða segir ekkert um sakleysi eða sekt, þar sem málið fékk aldrei rannsókn.
Einnig sagði hann ranglega að um væri að ræða eitt bréf. Það er rangt. Bréfin voru ótal mörg. En, þegar ég lagði fram kæruna árið 2005 voru öll bréfin fyrnd nema þau tvö síðustu. Sem eru skrifuð í sitthvorri heimsálfunni og bárust í sitthvoru lagi. Að segja að einn flugvallarbjór og örlítill dómgreindarbrestur sé þar um að kenna er því algjör vitleysa. Einbeittur brotavilji á hér betur við en dómgreindarbrestur.
Einnig nefndi Jón Baldvin káf þegar ég var 10 ára á Spáni, þar sem hann segir að bæði amma mín og mamma hafi verið viðstaddar. Mamma mín og amma voru báðar látnar á þessum tíma, og við vorum oftast bara tvö á staðnum þegar hann bar á mig sólarvörn, ekki einu sinni heldur í hvert sinn sem færi gafst.
Í krafti #Metoo hef ég nú einnig loksins getað tjáð mig um önnur brot hans, svokölluð orð á móti orði brot. Þegar ég vaknaði 13 ára um miðja nótt og hann stóð yfir rúminu mínu eða þegar hann reyndi að troða uppí mig tungunni þegar ég var 14 ára, svo eitthvað sé nefnt.
Allar þessar lygar, auk annars uppspuna í þessu viðtali, finnst mér sýna enn betur enn áður hverskonar veruleikafirringu þessi maður býr við. Þetta var mjög afhjúpandi.“
Tengt efni:
https://www.fti.is/2019/01/17/elstu-sogurnar-eru-um-50-ara-en-thaer-nyjustu-fra-thvi-i-fyrra/
https://www.fti.is/2019/01/19/segir-thessar-sogur-hreinan-uppspuna-skrumskaelingu-a-veruleikanum-og-ad-sannleikurinn-se-othekkjanlegur/