Samfylkingin mælist með sitt mesta fylgi í fimmtán ár. Stuðningur við hana er aðeins minna en samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með átján prósenta fylgi, Framsókn með átta prósent og Vinstri græn tæp sex samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallups.
Samfylkingin er enn í sókn og mælist með stuðning tæplega 31 prósents svarenda. Miðflokkurinn bætir sömuleiðis við sig og er með ellefu prósent. Átta prósent lýsa stuðningi við Pírata og jafn mörg við Flokk fólksins. Viðreisn fengi atkvæði sjö prósenta landsmanna, samkvæmt könnuninni. Sósíalistaflokkurinn er með rúm þrjú prósent og langt frá því að komast á þing gengi könnunin eftir.
Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentum og Miðflokkur og Flokkur fólksins einu prósenti hvor miðað við síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað en Framsókn, Píratar og Viðreisn tapa einu til tveimur prósentum hver. Fylgi Vinstri grænna minnkar lítillega.
Umræða