Veiðin með Gunnari Bender eru nýir þættir á Hringbraut sem hefjast í kvöld klukkan níu. Í þáttunum verður farið víða um árbakkana, farið á rjúpu, rennt fyrir lax og silung, flugur hnýttar og sagðar veiðisögur með veiðimönnum, út um allt land.
Tökur hófust í haust á þáttunum. „Við fórum þá vestur í Dali meðal annars og myndum síðan víða, eins og á Þingvöllum, við myndum stórurriðann og sjóbirtingsveiði þegar hausta tók“ segir Gunnar Bender í kynningu á þáttunum á Hringbraut .
,,Fyrsti þátturinn er sjóbirtingsveiði með Stefáni Sigurðssyni og Hörpu Þórðardóttur í Leirá í Leirársveit, þar sem við lentum í flottum sjóbirtingi og veiddum vel. Síðan hnýtir Friðrik Sigurðsson fyrir okkur flugu, sem bleikjan er brjáluð í.
Tökur gengu vel en alls ekki alltaf, allavega ekki þegar við lentum á bólakafi í Meðalfellsvatninu. Allir komust heilir upp úr vatninu en misblautir“ segir Gunnar ennfremur.
Veiðin með Gunnari Bender er fyrir veiðimenn á öllum aldri þar sem ungir veiðimenn og eldri hittast á árbakkanum og renna fyrir lax og silung. Veiðiskapur á að vera fyrir alla, þannig viljum við hafa það. Fyrsti þáttur verður á dagskrá klukkan 21:00 í kvöld.
https://www.fti.is/2019/01/27/fjorir-menn-fellu-nidur-um-is-a-medalfellsvatni/