Þrír voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á manndrápi í austurborginni í síðasta mánuði.
Tveir voru úrskurðaðir í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald, eða til miðvikudagsins 17. mars, og einn í áframhaldandi vikulangt gæsluvarðhald, eða til miðvikudagsins 10. mars. Þá var einn til viðbótar úrskurðaður í fjögurra vikna farbann, eða til miðvikudagsins 31. mars.
Gæsluvarðhald yfir þeim síðastnefnda rann út í dag, miðvikudag, en ekki var lögð fram krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald. Fjórir eru nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins og fimm hafa verið úrskurðaðir í farbann.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.