Vegna stríðsins í Úkraínu hefur Karim A.A. Khan, saksóknari hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, sagt að nægar vísbendingar séu um að stríðsglæpir hafi verið framdir í hernámi Rússa á Krímskaga 20114 og bardögum í austanverðri Úkraínu síðustu ár til að hefja formlega rannsókn.
Hann ætlar ekki að láta staðar numið þar heldur fylgjast vel með því hvort stríðsglæpir og glæpir gegn mannúð séu framdir í stríðinu sem nú stendur.Íslenskum lögum var breytt fyrir skömmu til að kveða á um refsingar fyrir stríðsglæpi. Að lágmarki þriggja ára fangelsisrefsing er fyrir stríðsglæpi, glæpi gegn mannúð og glæpi gegn friði en fimm ára fangelsi að lágmarki fyrir hópmorð. Í öllum flokkum er þyngsta refsing ævilangt fangelsi. Rúv greindi frá.
Úkraínsk stjórnvöld hafa leitað til Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag og hvatt til þess að sprengjuárásir þeirra á úkraínskar borgir verði rannsakaðar sem stríðsglæpir. Bandaríkjamenn segja að Rússar hafi flutt til Úkraínu vopn sem eru bönnuð samkvæmt Genfarsamningunum, klasasprengjur og lofttæmissprengjur. Sendiherra Úkraínu í Washington sagði Rússa hafa beitt lofttæmissprengju í stríðinu.