Formaður kjaranefndar Landssambands eldri borgara segir að endurmeta þurfi leiðir og baráttuaðferðir til að tryggja velferð og kjör eldri borgara í íslensku samfélagi.
Nú er árið 2022 að baki og 2023 hafið með nýjum tækifærum og áskorunum.
Nú er rétti tíminn til að líta um öxl, meta árangur liðins árs og reyna að spá í nýtt ár.
Samtök eldra fólks höfðu væntingar til stjórnvalda um að árið 2022 myndi verða upphaf að nýjum sigrum þar sem stigin yrðu skref að bættum kjörum. En hvað var þess valdandi að eldra fólk gat gert sér vonir um að nú væri stundin runnin upp?
Í fyrsta lagi var öllum stjórnmálaflokkum kynntar áherslur eldra fólks bæði fyrir Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar. Undirtektir voru mjög góðar og ekki hægt að skilja það með öðrum hætti en að pólitísk samstaða væri þvert á flokka. Ríkisstjórnin endurnýjaði umboð sitt og samþykkti nýjan stjórnarsáttmála þar sem því er lýst yfir að endurskoða eigi skerðingar og jaðarskatta eldra fólks.
Ríkisstjórnin hunsar eldra fólk
Nú hefur ríkisstjórnin í tvígang lagt fram fjárlagafrumvarp og Alþingi samþykkt án þess að vikið sé að því að bæta kjör eldra fólks t.d með því að draga úr skerðingum og minnka jaðarskatta. Fjárlög hverju sinni er mælikvarði á raunverulegan vilja ríkisstjórnar.
Raunveruleikinn er sá að bilið á milli lífeyris almannatrygginga og lágmarkslauna breikkar og skerðingar aukast m.a vegna þess að frítekjumörk hækka ekki í takt við breytt verðlag.
Verkalýðshreyfingin hunsar eldra fólk
Löng hefð er fyrir því á vettvangi ASÍ að við frágang á kjarasamningum sé jafnframt horft til breytinga á lífeyri frá TR. Landssamband eldri borgara (LEB) óskaði formlega eftir því við ASÍ, BSRB og BHM að í samtölum við ríkisstjórn í tengslum við frágang kjarasamninga yrði jafnframt tryggt að eldra fólk (eldri félagsmenn) njóti sambærilegra kjarabóta og aðrir launamenn.
Nú hafa um 80% félagsmanna ASÍ gengið frá kjarasamningum og ríkisstjórn kynnt aðgerðapakka sem sitt framlag til sáttar á vinnumarkaði. Það urðu gríðarleg vonbrigði að ekki er minnst einu orði á kjör eldra fólks í pakka ríkisstjórnarinnar. Þetta gerist þrátt fyrir að ríkisstjórn og launþegahreyfingin séu sammála um að sérstaklega beri að horfa til þeirra sem eru með lökust kjörin.
Forsætisráðherra hunsar eldra fólk
Í áramótaávarpi forsætisráðherra lagði ráðherrann sérstaka áherslu á að við gerð kjarasamninga bæri fyrst og fremst að horfa til þeirra sem eru með lökust kjörin. Hér hefði ráðherrann átt að horfa inn á við, því hópurinn sem er með lökustu kjörin er fólk sem verður að treysta fyrst og fremst á lífeyri frá TR. Þetta er líka sami stjórnmálamaðurinn sem sagði að fátækt fólk hefði ekki tíma til að bíða eftir réttlætinu.
Eldra fólk var ekki að biðja ríkisstjórnina um að fá eitthvað umfram aðra, heldur að kjarabætur yrðu sambærilegar við aðra launamenn. Verðbólga er 9,6% og allar nauðsynjavörur hækka, fasteignaskattar hækka, heilbrigðisvörur og þjónusta hækka, tryggingar hækka, bensínið hækkar, húsnæðiskostnaður rýkur upp og þessu verður eldra fólk að mæta með sínum lága lífeyri.
Miðað við hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru við eðlilegum óskum eldra fólks um sambærilegar leiðréttingar á sínum kjörum og annað launafólk er að fá, er yfirlýsing forsætisráðherrans um að leggja eigi áherslu á þá sem lakast standa ótrúverðug, raunveruleikinn er annar.
Raunveruleiki eldra fólks
En hvað er eldra fólk að fá í vasann um þessi áramót til að mæta þessum miklu verðhækkunum sem verðbólgan veldur í samanburði við þá sem eru búnir að ganga frá kjarasamningum?
Ellilífeyrir frá TR hækkaði 1. janúar um 21.210 kr. og verður 307.829 kr. á mánuði og þegar tekið hefur verið tillit til skerðinga er hækkunin 16.145 kr fyrir skatt. Í þessu dæmi er tekið mið af miðgildi lífeyrsis frá lífeyrisjóði 212.256 kr. í lok ársins 2023. Gert ráð fyrir að lífeyrir frá lífeyrissjóðum hækki um 5,6% og hækki á árinu 2023 um 11.226 kr. Þegar tekið hefur verið tillit til skerðinga og skattgreiðslna hækka ráðstöfunartekjur eldra fólks um 17.105 kr. á árinu 2023. Sé einstaklingur með heimilisuppbót bætist við 4.055 kr. fyrir skatt.
Sé horft til kjarasamnings SGS hækka taxtalaun að lágmarki um 35.000 kr. og ráðstöfunartekjur um 24.433 kr. á mánuði.
Sé hins vegar horft til kjarasamninga VR og iðnaðarmanna má ætla að ráðstöfunartekjur hækki á bilinu 25.745 til 42.908 kr. Auk þess hækkar orlofs- og desemberuppbót um 5%.
Lægsti launataxti á almennum vinnumarkaði verður frá 1. nóvember 2022 kr. 402.235 en lífeyrir frá TR frá 1. janúar 2023 er 307.829 kr. Bilið eykst enn frekar frá því sem var.
En hvað þýðir miðgildi lífeyris frá lífeyrissjóði kr. 212.256? Það segir okkur að helmingurinn er með 212.256 kr. og lægra og hinn helmingurinn með 212.256 kr og hærra. Vissulega er all stór hluti eldra fólks með ágætar tekjur og því ber að fagna en á móti er hópurinn sem er með mjög lágan lífeyri allt of stór og því verður að breyta.
Þessi gliðnun á milli lífeyris og launa endurspeglast í yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðherra sem hann birti í upphafi nýs árs. Að hans mati hækka ráðstöfunartekjur á almennum vinnumarkaði árið 2023 um 50.000 kr. á mánuði og þar af sé 8.000 kr. vegna uppfærðar viðmiða tekjuskatts sem gefur ekki rétta mynd, því gert er ráð fyrir að tekjuskattur lækki en útsvar hækkar samsvarandi.
Eldra fólk er mát
Eldra fólk hefur lagt sig fram um að eiga málefnalegt samtal við stjórnvöld, lagt fram skynsamar og hóflegar tillögur um bætt kjör eldra fólks án þess að það hafi borið árangur. Tillögurnar hafa gengið út á að lækka skerðingar og draga úr jaðarsköttum sem er í samræmi við gildandi stjórnarsáttmála.
Eldra fólk hefur leitað til verkalýðshreyfingarinnar en það hefur heldur ekki skilað árangri.
Það virðist vera pólitísk samstaða meðal stjórnarflokkana að kjör eldra fólks verði ekki bætt þrátt fyrir að ríkisstjórnin tali um að bæta eigi kjörin þeirra sem lakast standa.
Kári Stefánsson sagði í Silfrinu: „Það er að minnsta kosti alveg ljóst að velferðarkerfið okkar, sem er þessi gimsteinnn sem gerir þetta samfélag, eða hefur gert það, að griðarstað í gegnum áratugina, er farið að gefa eftir. Það er orðið mjög erfitt að telja sjálfum sér trú um að fólk sé öruggt í íslensku samfélagi nema það sé tiltölulega vel fjáð.“
Þrátt fyrir orð Kára er ég er sannfærður um að innst inni er forsætisráðherra ennþá þeirrar skoðunar að fátækt fólk getur ekki beðið eftir réttlætinu.
Það er engin uppgjöf hjá eldra fólki, en ljóst að endurmeta þarf leiðir og baráttuaðferðir.
Höfundur er formaður kjaranefndar LEB