Nú skulum við standa vörð um heimilin í landinu, því án þeirra erum við sannarlega ekkert
Á tímum sem þessum er mikilvægt að við stöndum þétt saman og snúum bökum saman.
Þó með minnst tveggja metra millibili.
Öll él birtir upp um síðir og á það sérstaklega vel við nú, þegar vorið er handan við hornið og sumarið framundan.
Það eru forréttindi að búa í landinu okkar á svona tímum, hér er fámennt og góðmennt og ekki verður betur séð en að allir séu að gera sitt besta.
Því fólki sem stendur í víglínunni þessa dagana sendum við kærar þakkir.
Það fólk leynist víða, það tekur á móti okkur á sjúkrahúsum, afgreiðir okkur í verslunum, tekur á móti börnunum okkar, heldur veitukerfum okkar gangandi og svo mætti lengi telja.
Við hin erum komin með mottó, Ég hlýði Víði.
Það er nefnilega svo að þótt margar séu skoðanirnar, þá er farsælast að fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum okkar hæfasta fólks sem fundar með okkur alla daga kl. 14.
Þar er þekkingin.
Á sama tíma er hugur okkar hjá þeim sem þessi vágestur fellir og fjölskyldum þeirra.
Þetta eru sannarlega óvenjulegir tímar svo ekki sé meira sagt.
Það skiptir öllu máli hvernig tekið er á málum við aðstæður sem þessar.
Margt jákvætt hefur komið fram nú þegar, lánastofnanir bjóða upp á frystingu lána hjá þeim sem verða fyrir tekjumissi, borgarstjórn leggur í aðgerðir með stuðningi allra flokka, ríkisstjórnin leggur í aðgerðir með stuðningi allra flokka og fleira mætti telja til.
Verði frekari aðgerða þörf af hálfu hvort sem er borgarstjórnar, sveitafélaga almennt eða ríkisstjórnar treystum við því að þar verði engin breyting á.
Hér er mikilvægt að skilja engan eftir.
Við lærðum margt á hruninu svonefnda og það helst að nú skulum við gera hlutina öðruvísi.
Allt öðruvísi.
Nú skulum við gera hlutina með þeim hætti að ekki þurfi 110 ára ríkisleynd vegna ,,fá að lifa lista´´ og ,,dauðalista´´.
Slík vinnubrögð eru ekki í boði í þetta sinn.
Það er gott mál að standa vörð um fyrirtækin okkar sem við getum ekki án verið, verja þannig þúsundir starfa og tryggja hraða endurheimt þegar ástandinu linnir.
En við megum ekki gleyma fólkinu okkar.
Nú skulum við standa vörð um heimilin í landinu, því án þeirra erum við sannarlega ekkert.
Gerum það að skýlausri kröfu að engin verði skilin eftir í þetta sinn.
Það gerum við best með kröfu um almennar aðgerðir því þær koma öllum til góða, ekki bara útvöldum.
Hlýjar kveðjur til ykkar allra.
Höfundur: Baldur Borgþórsson, Varaborgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík
Greinin birtist í Grafarholtsblaðinu þann 1.apríl 2020