Leikarinn Þröstur Leó Gunnarsson hlaut nú um helgina verðlaun ítölsku kvikmyndahátíðarinnar. BIF&ST sem besti leikari í aðalhlutverki í kvikmynd Hilmars Oddsonar Á ferð með mömmu.
Með verðlaununum bættist Þröstur Leó í hóp leikara á borð við Max von Sydow, Helen Mirren og Roberto Benigni sem hafa hlotið verðlaun BIF&ST fyrir leik í aðalhlutverki á undanförnum árum.
Formaður dómnefndar að þessu sinni var íranski leikstjórinn Jafar Panahi.
Í þakkarávarpi sínu sagðist Þröstur Leó taka auðmjúkur á móti verðlaununum, sem hefðu komið sér á óvart. Hann þakkaði meðleikurum sínum Kristbjörgu Kjeld og hundinum Dreka sérstaklega, sem og Hilmari Oddssyni leikstjóra og Hlín Jóhannesdóttur, framleiðanda fyrir gefandi samstarf.
Á ferð með mömmu er svokölluð svört komedía, sem hefur hlotið lof gagnrýnenda hér heima og erlendis. Í myndinni fer Þröstur Leó með hlutverk Jóns, sem tekur sér ferð á hendur þvert yfir landið með lík móður sinnar í aftursætinu, til að uppfylla hennar hinstu ósk. Móður hans leikur Kristbjörg Kjeld, en veigamikil hlutverk eru einnig í höndum Heru Hilmarsdóttur og Tómasar Lemarques.
Þetta eru þriðju alþjóðlegu verðlaunin sem Á ferð með mömmu hlýtur síðan hún var heimsfrumsýnd á PÖFF kvikmyndahátíðinni í Tallin í nóv. sl. Þar hlaut hún aðalverðlaunin, Grand Prix, sem besta kvikmynd og ennfremur hlaut tónskáld myndarinnar, Tõnu Kõrvits verðlaunin fyrir bestu kvikmyndatónlist.
Á ferð með mömmu var frumsýnd á Íslandi fyrr á þessu ári og hefur verið aðsókarmesta íslenska kvikmyndin í bíó undanfarnar vikur.
Ljósmynd: Liisabet Valdoja
Á ferð með mömmu. Þröstur Leó Gunnarsson í hlutverki Jóns, sem færði
honum verðlaunin á BIF&ST kvikmyndahátíðinni (Bari International Film
Festival).
https://gamli.frettatiminn.is/13/03/2023/a-ferd-med-mommu-i-bio/