Vestfirðingar sýndu ráðamönnum á íbúafundi í Bolungavík um laxeldi í sjó að þeir standa saman í stórum málum í kjördæminu. Fundurinn var mjög fjölmennur og margir fundarmenn töluðu ákveðið til ráðherrans og Hafrannsóknarstofnunar. Hafa ber í huga að fundurinn var knúinn fram af heimamönnum sem vilja fá skýr svör um afstöðu og vilja stjórnvalda til uppbyggingar í fjórðungnum.
Helstu tíðindin af fundinum eru þau að Vestfirðingar eru svo gott sem samhljóða í kröfum sínum um uppbyggingu í atvinnumálum með laxeldi. Íbúar við Ísafjarðardjúp gerðu harða kröfu á ráðherrann um stuðning hans við laxeldi í Djúpinu. Fundarmenn af hálfu heimamanna sögðu fullum fetum að þeir skildu ekki hvers vegna minni hagsmunir eru látni víkja fyrir meiri hagsmunum. Útflutningstekjur af laxeldi í Ísafjarðardjúpi geta verið 25 – 30 milljarðar króna árlega og atvinnustarfsemin gefur um 400 störf beint og óbeint.
Kristinn H. Gunnarsson
Íbúum gæti fjölgað um 900 samkvæmt varlegu mati. En þrjár laxveiðiár í Djúpinu skila aðeins um 500 löxum og 20 – 25 milljónum króna og varla nokkru ársverki. Þarna er ólíku saman að jafna þar sem miklum verðmætum er fórnað fyrir þrönga hagsmuni fárra veiðiréttareigenda.
Leikrit ráðherra og Hafró
Í þessu máli var það sjávarútvegsráðherrann í ríkisstjórninni á undan, núverandi formaður Viðreisnar sem tók ákvörðun um að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi. Í orði kveðnu er rökstuðningurinn sá að verið sé að vernda laxastofnana í þessum þremur litlu veiðiám í Djúpinu fyrir blöndun við norskan eldislax. Þarna beita sér eigendur laxveiðiréttinda og samtök þeirra á landsvísu sem leggjast gegn laxeldi í sjó um land allt. Veikgeðja og hagsmunatengdir stjórnmálamenn hafa snúist eins og skopparakringlur eftir þessum áhrifamönnum, sem einkum láta að sér kveða innan Sjálfstæðisflokksins. Hafa ber í huga að 2004 var lokað fyrir laxveiði víðast hvar á landinu og um 98% af laxveiðám landsins voru með þeirri ákvörðum verndaðar fyrirhugsanlegum áhrifum af laxeldi í sjó.
Á Vestfjörðum var ákveðið að leyfa laxeldi einmitt vegna þess að þar yrðu hugsanleg neikvæð áhrif af eldi á laxastofna hvað minnst, ef nokkur. Þegar á reynir og í ljós kemur að laxeldi er atvinnugrein sem á framtíð fyrir sér á Íslandi og uppbyggingin hefst fyrir alvöru á Vestfjörðum fara þessir áhrifamenn af stað og beita áhrifum sínum og ná að stöðva áformin um uppbyggingu í Ísafjarðardjúpi.
Farin er sú leið að klæða bannið í fræðilegan búning og auðvitað er Hafrannsóknarstofnun notuð í þetta skítverk, stofnun sem er mikils metin í þjóðfélaginu. Það sem verra er að til áhrifa innan Hafrannsóknarstofnunar eru komnir gamlir samverkamenn laxveiðiréttarhafa sem áður vou innan Veiðimálastofnunar. Forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar er einn þeirra sem lengi hefur verið mótfallinn laxeldi og undir hans stjórn er stofnunin meira en fús til þess að búa til „fræðilegar“ hindranir fyrir eldinu. Fyrst er fundið upp svonefnt burðarþolsmat.Það dugði ekki til þess að slá á uppbyggingaráformin og þá var búið til áhættumat sem horfði aðeins á möguleikana á erfðablöndun laxa. Valdar voru forsendur inn í líkanið þannig að fyrirsjáanlegt var að útkomin yrði neikvæð.
Á þessum tilraunagrunni, sem hefur ekki gengið í gegnum neinn vísindalegan prófstein, svo sem nákvæmt rýni utanaðkomandi fræðimanna, ákveður sjávarútvegsráðherrann að banna laxeldið í Ísafjarðardjúpi. Ákvörðunin er látin sýnast vera vísindaleg en hún er pólitísk og byggð á baktjaldamakki og óþrifasamningum í reykfylltum bakherbergjum stjórnmála og sérhagsmuna.
Aftur í leikriti
Sjávarútvegsráðherra átti ekkert erindi við Vestfirðinga, hann hafði ekkert að segja þeim og hefði sjálfsagt viljað komast hjá því að halda fund. En krafan að vestan til hans um svör var svo þung að hann átti enga undankomuleið og að nafninu til stóð ráðuneyti hans fyrir fundinum. Það er góðs viti um styrk Vestfirðinga. En ráðherrann spilaði sitt hlutverk og gaf ekkert upp um hvað yrði og vísaði á Hafrannsóknarstofnun. Vestfirðingar þekkja svona leikrit. Þessi ágæti sjávarútvegsráðherra hefur áður tekið að sér að vera strengjabrúða í leikriti valdamikilla hagsmunaaðila. Hann var sem bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ stjórnarformaður Samherja þegar Samherji og Hrönn hf sameinuðust. Þetta hlutverk lék bæjarstjórinn af mikilli fimi og fékk Ísfirðinga til þess að trúa því að til stæði að gera Guðbjörgina út frá Ísafirði. Auðvitað stóð það ekki til og leikarinn stökk norður og gerðist bæjarstjóri á Akureyri og skildi Ísfirðingana eftir með sárt ennið.
Sjávarútvegsráðherrann er að leika öðru sinni í leikriti. Það var ekki í handritinu búið að skrifa svar til Vestfirðinga á fundinum í Bolungavík. Það kemur seinna, ekki fyrr en eftir kosningar og það verður ekki heldur Hafrannsóknarstofnun sem ákveður svarið. Það verða pólitísku valdamennirnir sem munu ákveða það og senda rulluna til leikaranna.
Vestfirðingar geta haft mikil áhrif á framvindu málsins með því að gera mönnum ljóst að pólitískur skaði verður mikill ef hagsmunir Vestfirðinga verða áfram látnir víkja fyrir frekjuhundum sérhagsmunanna. Þetta eru pólitísk átök sem snúast um vald og peninga. Fræðilegi búningurinn er bara fyrirsláttur.
Kristinn H. Gunnarsson