Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar 2018 var samþykktur á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag. Rekstrarafgangur A og B hluta bæjarsjóðs nam 1.129 milljónum króna þrátt fyrir mikilvægar fjárfestingar og óhjákvæmilegar lántökur á árinu. Skuldaviðmið sveitarfélagsins er komið niður í 112% og hefur ekki verið lægra í 25 ár.
Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar 2018 sýnir að fjárhagsstaða sveitarfélagsins heldur áfram að styrkjast. Heildartekjur ársins voru 3,6% yfir áætlun eða 926 milljónir króna. Veltufé frá rekstri var 3.863 milljónir króna eða 14,4% af heildartekjum. Rekstrarafgangur ársins fyrir A og B hluta bæjarsjóðs nam, eins og áður segir, 1.129 milljónum króna en fjárhagsáætlun 2018 gerði ráð fyrir 799 milljóna króna rekstrarafgangi.
Rekstrarniðurstaða fyrir A hluta jákvæð um 490 milljónir króna meðan áætlun gerði ráð fyrir 213 milljóna króna afgangi. Betri niðurstaða skýrist meðal annars af 236 milljónum króna hærri skatttekjum.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar er að vonum ánægð með niðurstöðurnar. „Rekstur Hafnarfjarðarbæjar er traustur og ljóst að agi, eftirlit og ábyrg fjármálastjórn er að skila sér. Skuldaviðmiðið heldur áfram að lækka og rekstrarniðurstöður heilt yfir jákvæðar og yfir áætlunum. Ábyrg fjármálastýring undanfarin ár hefur styrkt undirstöður rekstrar í sveitarfélaginu og gert það betur í stakk búið til að takast á við efnahagslegar áskoranir og þau verkefni sem framundan eru.
Við horfum bjartsýn fram á veginn og munum halda áfram að taka örugg og ígrunduð skref í átt að enn öflugri þjónustu, fjárfestingum og framkvæmdum“. Rekstur málaflokka var í takt við fjárhagsáætlun en helstu frávik má rekja til hækkunar vistunargjalda, aukins kostnaðar í málefnum fatlaðs fólks og aðkeyptrar kennsluþjónustu.
Fjárfest fyrir um 5,3 milljarða á árinu
Fjölgun íbúa kallar á nauðsynlega uppbyggingu innviða samhliða mikilvægu viðhaldi á eignum bæjarins. Fjárfest var fyrir 5.289 milljónir króna í innviðum og þjónustu á árinu. Stærstu framkvæmdirnar voru bygging nýs skóla í Skarðshlíð fyrir 2.061 milljón króna og hjúkrunarheimilis fyrir 850 milljónir króna. Framkvæmdir vegna íþróttamannvirkja að Ásvöllum, Kaplakrika og við Keili námu alls um 696 milljónum króna.
Kaupverð íbúða í félagslegt húsnæðiskerfi sveitarfélagsins nam 457 milljónum króna og endurbætur á St. Jósefsspítala, um 113 milljónum króna. Um einn milljarður króna fóru í framkvæmdir við gatnagerð m.a. við Reykjanesbrautina. Samhliða hefur auknu fjármagni verið veitt til fræðslu- og frístundamála og fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins.
Tekin voru ný lán á árinu vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð um 2 milljarðar króna og um 1,4 milljarður króna vegna byggingar hjúkrunarheimilis. Auk þess var tekið 500 milljóna króna lán vegna fjárfestinga Húsnæðisskrifstofu á leiguíbúðum í félagslega kerfið. Greiðslur langtímaskulda námu alls 1,6 milljarði króna eða um 200 milljónir króna umfram afborganir samkvæmt lánasamningum.
Heildareignir samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi í lok árs námu samtals 55.971 milljón króna og jukust um 4.798 milljónir milli ára. Heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 43.191 milljónir króna og hækkuðu um 3.004 milljónir króna á milli ára. Eigið fé var 12.780 milljónir króna. Langtímaskuldir jukust um 2.944 milljónir króna vegna fyrrgreindrar lántöku, lífeyrisskuldbinding hækkaði um 525 milljónir króna en skammtímaskuldir lækkuðu um 763 milljónir króna.
Hafnarfjardarbaer_ársreikningur_ 2018