Niðurstöður útboðs á tollkvóta fyrir búvörur frá Evrópusambandinu voru birtar á föstudag. Útboðsgjald, sem innflytjendur þurfa að greiða fyrir að fá að flytja vörurnar inn án tolla, hækkar í ýmsum tilfellum frá síðasta útboði í janúar, en í öðrum tilvikum er um lækkun að ræða.
Sú breyting, sem Alþingi gerði á búvörulögum í desember, að taka upp eldri aðferð við uppboð á tollkvótunum til að vernda innlenda búvöruframleiðslu tímabundið vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, leiðir hins vegar í öllum tilvikum til hækkunar á útboðsgjaldi frá því í júní síðastliðnum, en þá var tollkvótum úthlutað í fyrsta sinn með svokölluðu jafnvægisútboði.
Þróun útboðsgjaldsins fyrir mismunandi vörur má sjá í töflunni hér að neðan.
Eins og sjá má er hækkun útboðsgjaldsins á bilinu 102-185 krónur fyrir nautakjöt, alifuglakjöt, þurrkaðar og reyktar skinkur, pylsur og eldaða kjötvöru. Eingöngu í tilviki osta og svínakjöts er hækkunin óveruleg. „Þessar hækkanir á kostnaði innflytjenda við að flytja inn vöruna fara að sjálfsögðu út í matvöruverð og stuðla að hækkandi verðbólgu,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Eins og FA hefur ítrekað bent á, skýtur það mjög skökku við að stjórnvöld skuli þannig meðvitað beita sér fyrir hækkun matvöruverðs. Á sama tíma og verðbólgudraugurinn nær sér á strik og mesta verðbólga í átta ár mælist hafa stjórnvöld gripið til þess ráðs að stuðla að verðhækkunum á innfluttum mat til að verja innlenda framleiðendur búvöru. Þessi lagabreyting ver aðallega kjötafurðastöðvar og Mjólkursamsöluna fyrir samkeppni, en gerir ekkert til að bæta hag bænda. Hún bitnar hins vegar hart á almennum neytendum.“
Innflytjendum vísvitandi gert erfiðara fyrir með því að úthluta seint
FA gerir jafnframt alvarlegar athugasemdir við að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skuli birta úthlutun tollkvóta daginn áður en innflutningsheimildirnar taka gildi, en núverandi úthlutun gildir frá 1. maí til 15. september. FA hefur með bréfi til ráðuneytisins í dag ítrekað ábendingar sínar frá því í byrjun april, en þá vakti félagið athygli á að í þetta stefndi vegna þess hve auglýsing um tollkvóta birtist seint. FA benti ráðuneytinu á að þetta hefði þau áhrif að stór hluti kvótatímabilsins nýttist ekki. Innflytjendur panta eðlilega oft ekki vörur nema þeir fái úthlutað tollkvóta. Nokkrar vikur líða frá því að vörur eru pantaðar og þar til þær eru komnar á lager. Gera má ráð fyrir að vörur, sem pantaðar eru í dag, fyrsta virka daginn sem tollkvótinn er í gildi, skili sér inn á lager innflutningsfyrirtækja á tímabilinu 25. maí til 14. júní.
„Slíkar tafir auka hættuna á að fyrirtækin geti ekki fullnýtt kvóta, sem þau hafa greitt fyrir háar fjárhæðir,“ segir Ólafur Stephensen. „Þetta er annað tollkvótatímabilið í röð þar sem ráðuneytið úthlutar tollkvóta alltof seint. Við sjáum ekki annað en að með því sé vísvitandi verið að gera innflutningsfyrirtækjum erfiðara fyrir.“
FA fer þess á leit að ráðuneytið endurskoði verklag sitt við auglýsingu og úthlutun tollkvóta þannig að ferlið fari fram með mun betri fyrirvara og úthlutun kvóta liggi fyrir ekki síðar en þremur vikum fyrir upphaf úthlutunartímabils.
„Með því móti má stuðla að því að starfsumhverfi innflutnings búvöru sé stöðugra og fyrirsjáanlegra. Eins og FA benti á í fyrra erindi sínu ganga aðgerðir stjórnvalda sem hefta og takmarka innflutning gegn tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur. Ráðuneytið hlýtur því að leitast við að fyrirkomulagið sé sem skilvirkast,“ segir í erindi FA til ráðuneytisins. „Í ljósi ofanritaðs ítrekar FA þá kröfu að ráðuneytið veiti a.m.k. eins mánaðar framlengingu á nýtingu tollkvóta sem úthlutað hefur verið vegna tímabilsins 1. maí til 15. september.“