Árvakur hf., útgefandi Morgunblaðsins, mbl.is og K100, var rekinn með 110 milljóna króna hagnaði í fyrra en árið á undan var tapið 75 milljónir. Móðurfélag Árvakurs, Þórsmörk ehf., var rekið með 186 milljóna króna hagnaði, en tap þess var 62 milljónir árið 2020. Tekjur Þórsmerkur námu 4,9 milljörðum króna og jukust um tæpar þrjú hundruð milljónir á milli ára, samkvæmt frétt blaðsins í dag.
Þá segir að annað dótturfélag Þórsmerkur, Ár og dagur ehf., hafi keypt húsnæðið þar sem ritstjórnarskrifstofur Árvakurs séu ásamt annarri starfsemi ótengds aðila. Hádegismóa 4 við hlið prentsmiðjuhúss samstæðunnar í Hádegismóum 2, sem er einnig í eigu dótturfélags Þórsmerkur og er 6.476 fermetrar að stærð. Skrifstofuhúsið, sem er 3.852 fermetrar að stærð, var í eigu fasteignafélagsins Regins hf. Kaupverðið var 1.590 milljónir króna.
Hagnaður Þórsmerkur fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, nam 420 milljónum í fyrra en var 190 milljónir árið áður. Eignir um síðastliðin áramót námu tæpum 2,5 milljörðum króna en voru tæpir 2,4 milljarðar ári fyrr. Eiginfjárhlutfall var 35% í árslok 2021, en hafði verið 25% í árslok 2020.