8.8 C
Reykjavik
Sunnudagur - 5. febrúar 2023
Auglýsing

Skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

,,Hér hefur verið talað fyrir daufum eyrum vegna þess að ítrekað hefur verið minnst á það hvaða leiðir sé hægt að fara til úrbóta í löggæslu“

,,Mig langar að beina fyrirspurn til forsætisráðherra sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar. Það eru nýkomnar fréttir af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi sem er verulega alvarleg. Miðflokkurinn hefur ítrekað staðið fyrir sérstökum umræðum um málefni löggæslu í landinu, bæði lögreglu og tollgæslu, og talað fyrir daufum eyrum. Bent hefur verið á að það vanti 80 lögreglumenn á vaktir á höfuðborgarsvæðinu til þess m.a. að vinna greiningarvinnu, vinna að forvarnastarfi, vinna að frumkvæðismálum, en það hefur lítið gerst. Ég ætla ekki að vanþakka það sem hefur gerst varðandi kynferðisbrot og tölvuglæpi o.s.frv. en það er ekki sýnileg löggæsla. Það er ekki frumkvæðisvinna. Það eru ekki lögreglumenn á vakt. Það eru ekki hendur sem taka til þegar erfið útköll eru. Það eru ekki menn sem duga, það vantar sem sagt líka upp á þjálfun. Það vantar forvirkar rannsóknaraðferðir.“ Sagði Þorsteinn Sæmundsson á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnum.

,,Það sem sá sem hér stendur vill fá að vita og spyr forsætisráðherra um er: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Það er alltaf erfiðara þegar menn þurfa að vinna til baka landsvæði eða vinna til baka eitthvað sem hefur á hallað. Nú er það því miður þannig að skipulögð glæpastarfsemi hefur grafið um sig og það tekur töluvert á að snúa þeirri þróun við. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að sporna við þessari starfsemi, reyna að uppræta hana? Hvernig á að efla lögregluna, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu? Hvernig á að bæta tækjakost hennar? Hvernig á að bæta aðferðir hennar, forvirkar o.s.frv.? Svar óskast nú.“

https://www.facebook.com/midflokkur/videos/860061771025840/

Katrín Jakobsdóttir sagðist þakka Þorsteini Sæmundssyni fyrir að vekja máls á þessari skýrslu. ,,Ég tek undir með þingmanninum að að sjálfsögðu er mikilvægt að við förum vel yfir hana og tökum hana alvarlega. Ég er þó ekki sammála þeirri forsendu sem hv. þingmaður gefur sér, að hér sé talað fyrir daufum eyrum þegar við ræðum ógnir sem stafa af skipulagðri glæpastarfsemi. Það er ekki svo, heldur skiptir einmitt máli að við nálgumst þetta mál á heildstæðan hátt. Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum á föstudaginn að fara sérstaklega yfir þessa nýjustu greiningu með fulltrúum forsætisráðuneytis sem formanni þjóðaröryggisráðs, dómsmálaráðuneyti sem auðvitað er lykilráðuneyta í þeim málaflokki, sem fer með málefni löggæslu, en einnig með fulltrúum frá heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, því að við þurfum líka að horfa á málin heildstætt, ekki bara út frá glæpastarfseminni sjálfri heldur líka afleiðingum hennar.

Tökum eitt dæmi, notkun ópíóða sem við ræddum töluvert á þingi í fyrra. Við sjáum að það hefur dregið verulega úr ávísunum á ópíóðalyf með samstilltu átaki sem heilbrigðisráðherra hefur leitt. Það skiptir máli þannig að við þurfum í raun og veru að nálgast þetta á miklu heildstæðari hátt og horfa á þetta út frá ólíkum nálgunum.

Þá vil ég geta þess líka að þau mál hafa verið á dagskrá þjóðaröryggisráðs, því að það skiptir auðvitað máli. Þar sitja fulltrúar Alþingis og þriggja ráðuneyta sem og lögreglunnar, Landhelgisgæslunnar og Landsbjargar. Það skiptir einnig máli að við ræðum þau mál á þeim vettvangi. En ég ítreka að við settum niður sérstakan vinnuhóp til að fara yfir þessa skýrslu og gera tillögur um umbætur og þær munu lúta að löggæslunni, eins og hv. þingmaður spyr um, en líka að öðrum þáttum á borð við heilbrigðis- og félagskerfinu.“

Þorsteinn Sæmundsson varð fyrir vonbrigðum með svör forsætisráðherrans  
,,Ég þakka forsætisráðherra fyrir svarið sem veldur að vissu leyti vonbrigðum. Jú, forsætisráðherra, það er þannig að hér hefur verið talað fyrir daufum eyrum vegna þess að ítrekað hefur verið minnst á það hvaða leiðir sé hægt að fara til úrbóta í löggæslu. Af því að minnst er á þjóðaröryggisráð er það þannig að í þjóðaröryggisráð vantar ríkistollstjóra. Reyndar liggur frumvarp fyrir þinginu sem ætti að bæta úr því og þá erum við að tala um þann sem hefur kannski öflugustu landamæragæsluna innan sinna vébanda. Það þarf að stemma stigu við þessu með öllum hætti. Með mikilli virðingu fyrir heilbrigðisyfirvöldum og öllum er nú kominn tími til að fara út í raunhæfar aðgerðir í löggæslumálum. Það þarf að efla löggæsluna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, bæði hvað varðar mannafla, tæki og úrræði. Þetta þarf að gerast núna. Ég vona því að menn tali hratt þegar þeir eru að tala saman og ég (Forseti hringir.) get fullvissað hæstv. forsætisráðherra um að hún mun ekki ganga ein ef hún tekur þá ákvörðun að taka vel á þessu máli.