Fremur rólegt var í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi síðasta sólarhring. Mikill fjöldi ferðamanna, innlendra sem erlendra, eru nú í umdæminu og tjalsvæði víða þétt skipuð. Skemmtanahald fór vel fram og voru fá útköll og verkefni sökum vímuástands eða óspekta síðastliðna nótt. Einn gisti fangageymslu lögreglu á Selfossi.
Umferðarmál voru nokkuð mörg og ber þar mest á hraðakstri en 20 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var mældur á 176 km/klst hraða. Var ökumaður sviptur ökuréttindum á staðnum og þurfti að láta af hendi nokkurra daga gamalt ökuskírteini sitt. Þess má geta að skv. sektarreikni Samgöngustofu sem að Fréttatíminn fletti upp, Má sjá að akstur yfir 161km/klst kostar 240.000 krónur í sekt og sviptingu ökuleyfis í þrjá mánuði og þrír punktar tapast. En þegar ekið er hraðar en 171 km/klst eins og í þessu tilfelli, þá er ökumaðurinn ákærður og sekt eða önnur refsing ákveðin fyrir dómi, og lengd tíma um sviptingu ökuleyfis .
Lögregla mun halda uppi öflugu eftirliti næstu daga. Ökumenn mega búast við að lögregla setji upp eftirlitsstöðvar á völdum staðsetningum þar sem kannað verður með ástand ökutækja sem og ástand og réttindi ökumanna. Lögregla verður einnig með óeinkennisklædda lögreglumenn á ferð um umdæmið.
Lögregla áréttar að akstur, áfengi og önnur vímuefni eiga ekki samleið og beinir þeim tilmælum til ökumanna að setjast ekki undir stýri nema allsgáðir og úthvíldir.
Rólegt var hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu eins og ftast um verslunarmannahelgar.