Fjórir eru í haldi lögreglu eftir að karlmaður fannst látinn í heimahúsi í Ólafsfirði í nótt. Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi verið stunginn með eggvopni, en hann var gestkomandi í húsinu.
Óskað var eftir lögregluaðstoð á þriðja tímanum í nótt og voru lögreglumenn frá Akureyri og Tröllaskaga ræstir út auk tveggja sérsveitarmanna, lækna og sjúkraflutningafólks. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi.
Rannsókn málsins er í höndum lögreglu á Norðurlandi eystra en hún nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla segir engan eftirlýstan vegna málsins og að ákveðið verði síðar í dag hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim handteknu.
Umræða