Katrín og Bjarni eru reið og segja að ,,reikningurinn verði greiddur af greininni“
Upphafleg krafa kvótaþeganna gegn ríkinu var upp á ríflega tíu milljarða auk vaxta en fimm kvótaþegar drógu kröfuna til baka. Skv. upplýsingum frá lögmanni sem Fréttatíminn ræddi við, ,,kann það ekki að vera útilokað að þau fyrirtæki komi aftur fram með kröfur sínar þegar dómafordæmið liggur fyrir og krefjist þá ríflega tíu milljarða auk dráttarvaxta og alls mögulegs kostnaðar af eiganda kvótans, sem er þjóðin. Ég gæti trúað að sú krafa kunni að vera nálægt 15 milljörðum sem eru margföld þau árlegu veiðigjöld sem útgerðir eru að greiða, sem ná reyndar ekki einu sinni til að standa undir þeim kostnaði sem þarf að greiða árlega vegna greinarinnar.“
Matsmenn hafa verið dómkvaddir til að leggja mat á fjárhagslegt tjón Vinnslustöðvarinnar og Hugins í Vestmannaeyjum vegna úthlutunar makrílkvóta. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir í viðtali við mbl.is í dag að tjón fyrirtækjanna hafi verið metið af þeirra hálfu og skaðabótakrafa byggð á því mati. Dómkvaddir matsmenn fari nú yfir málið og það ferli geti tekið einhvern tíma.
Þann 15. apríl s.l. birti Fréttatíminn frétt um að fimm fyrirtæki sem áður höfðu gert kröfu á hendur ríkinu hefðu dregið þær til baka. Sigurgeir Brynjar framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar sagði þá að stjórn fyrirtækisins hafi verið samstíga í að halda kröfunni til streitu gegn ríkinu og staðfesti það þá m.a. í viðtali í kvöldfréttum stöðvar tvö og skrifaði einnig grein í Moggann, þar sem hann réttlætir 10.2 milljarða kröfu á hendur þjóðinni vegna makrílkvóta.
Þá segir enn fremur í þeirri frétt: ,,Fyrirtækin hafa haft þjóðina á móti sér ef marka má harkalega umræðu bæði á netinu og í rituðu máli og manna á milli. Þá hafa bæði þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar verið furðu lostnir og fordæmt þann yfirgang og frekju sem krafan er sögð vera, á meðal þjóðarinnar og það í miðjum heimsfaraldri. Krafan hefði hljóðað upp á rúmlega þreföld veiðigjöld allra útgerða á Íslandi miðað við áætlaða greiðslu upp á liðlega fjóra milljarða fyrir núgildandi ár. Þjóðin hefði með því móti ekki fengið nein veiðigjöld í meira en þrjú ár þegar sú fjárhæð væri frádregin.“
Reið þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða auk vaxta
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í frétt Fréttatímans þann sama dag; að bæði fólk og fyrirtæki hafi sýnt mikla ábyrgð vegna Covid-19 og flokkar á Alþingi sömuleiðis.
„En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða króna vegna makrílúthlutunar. Það er ekki góð leið til þess að efla samstöðu í samfélaginu,“ sagði forsætisráðherra og vísaði þar til kröfu sjö útgerða sem krefja ríkið um samanlagt 10,2 milljarða króna í skaðabætur vegna úthlutunar veiðiheimilda í makríl á árunum 2011 til 2018. Rúv sagði fyrst frá og þar kemur einnig eftirfarandi tilvitnun fram:
,,Katrín sagði jafnframt að þótt hún teldi að ríkið hefði góðan málstað í þessu máli þá fyndist henni eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi að draga þessar kröfur til baka. „Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra. Hvort sem við erum að reka fyrirtæki, erum launafólk eða hver sem við erum
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræddi einnig um kröfur sjávarútvegsfyrirtækjanna í sinni ræðu. Hann sagðist hafa væntingar til þess að ríkið vinni málið. Fari svo að málið dæmist ríkinu í óhag verði reikningurinn ekki greiddur af skattgreiðendum. Reikningurinn verði greiddur af greininni.“
Tengt efni:
https://gamli.frettatiminn.is/segist-ekki-eiga-tortolafelag-med-sama-nafni-og-ehf-felag-krafist-milljarda-fyrir-makrilkvota/
https://gamli.frettatiminn.is/vinnslustodin-einangrud-i-10-2-milljarda-krofu-a-rikid-fimm-sjavarutvegsfyrirtaeki-drogu-krofur-til-baka/
https://gamli.frettatiminn.is/katrin-og-bjarni-fordaema-10-2-milljarda-krofu-utgerdanna-reikningurinn-verdi-greiddur-af-greininni/
Tengt efni: