Óprúttnir aðilar komust inn í tölvupóstssamskipti norska ríkisútvarpsins (NRK) og RÚV og notuðu þau til að svíkja um tólf milljónir af NRK. Málið tengist framleiðslu á þáttunum „Ráðherrann“ sem stöðvarnar framleiða saman.
„Það sem gerist þarna er að óprúttinn aðili kemst inn á milli í samskiptum og breytir upplýsingum í þeim reikningum sem við erum að senda NRK ” Segir Bragi Reynisson, forstöðumaður tækni hjá RÚV sem fjallarði um málið.
Stöðvarnar eru sem stendur í samframleiðslu á sjónvarpsþáttaseríunni Ráðherrann og tengdust reikningarnir þeirri framleiðslu.
Málið hefur verið tilkynnt til lögreglunnar í Noregi og fer hún með rannsókn málsins.
„Þetta er árás sem beinist gegn NRK en ekki RÚV og við að sjálfssögðu munum styðja við þá rannsókn ef á þarf að halda en þetta er ekki tilkynnt til lögreglu á Íslandi,“ segir Bragi.
Bæði RÚV og NRK notast við tveggja þátta auðkenningu og því um mjög úthugsað og skipulagt brot að ræða. Í frétt NRK kemur fram að glæpamennirnir hafi platað starfsmann norska ríkisútvarpsins til að skrá sig inn á óöruggt netsvæði svo komast mætti fram hjá öryggiskerfum stofnunarinnar.
Vel þekkt aðferð
Bragi segir að um þekkta aðferð sé að ræða þar sem komist er inn í samskipti tveggja aðila og bankaupplýsingum breytt til að komast yfir fé.
„Við sendum póst með þessum tiltekna reikningi. Glæpamennirnir fara svo inn á milli í þessum samskiptum og stöðva póstinn áður en hann berst NRK. Þeir búa svo til annað lén sem er þá ruv-is.com og endurgera póstinn alveg eins og hann var þegar hann koma frá okkur nema endingin á léninu er orðin önnur,” segir Bragi.
Þannig hafi glæpamennirnir tekið yfir samskipti stofnananna.
“Við verðum í raun ekkert vör við þau samskipti sem NRK á við þá fyrr en við förum að ganga á eftir því hvar greiðslan er stödd,” segir hann.
Mikilvægt að athuga nýjar upplýsingar
Bragi segir að til að forðast svindl sem þessi sé mikilvægt að sannreyna nýjar upplýsingar með óháðum leiðum.
“Það er ofboðslega mikilvægt þegar um háar upphæðir er að ræða eða erlenda reikninga” segir Bragi sem telur upp nokkrar óháðar leiðir.
„Til dæmis að hringja í þann sem sendi reikninginn eða eiga samskipti við hann með öðrum leiðum en þeim sem reikningur barst með. Til að sannreyna að þær nýju upplýsingar sem eru að berast séu raunverulegar og réttar,“ segir Bragi í viðtalinu.