Aðstandendur facebookhópsins #metoo Jón Baldvin Hannibalsson sendu frá sér yfirlýsingu í dag í kjölfar viðtals sem var í Silfrinu í gær. 760 meðlimir eru í hópnum og hér að neðan er yfirlýsing forsvarsmanna hópsins:
,,Hér er að finna 23 nafnlausar sögur (meintra) þolenda af kynferðisbrotum og áreiti Jóns Baldvins Hannibalssonar sem ná yfir nær 60 ár. Við viljum gera þær opinberar í anda þeirrar bylgju sem farið hefur yfir heiminn og sameinar konur þegar þær segja: Ég líka – Me too! Við viljum að það samfélag sem hefur litið undan þrátt fyrir að kynferðisbrot hans hafi verið gerð opinber geti nú lesið þær reynslusögur sem er okkar sannleikur. Þannig viljum við frelsa okkur frá þeirri þjáningu sem samskipti við hann hafa valdið okkur í áratugi. Við erum frelsinu fegnar.
Við hófum þessa vegferð nokkrar konur eftir að við fregnuðum að Jón Baldvin væri enn að áreita konur, með þá von í brjósti að nú myndum við afhjúpa og stöðva þann sem braut gegn okkur. Það hefur verið reynt áður án árangurs. Árið 2012 var gert opinbert að hann braut gegn Guðrúnu Harðardóttur og árið 2013 steig Aldís Schram fram og gerði afbrot hans kunnug. Þær lögðu báðar fram kæru gegn honum sem sættu frávísun án rannsóknar. Við vissum að fleiri konur byggju yfir sömu reynslu og óskuðum eftir vitnisburðum þeirra. Þegar sögurnar fóru að berast áttuðum við okkur á stærð málsins og vitum að enn eru fleiri sögur ósagðar.
Við viljum beina sjónum að (meintum) gerandanum Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrrverandi kennara, skólameistara, ritstjóra, þingmanni, formanni Alþýðuflokksins, ráðherra og sendiherra sem hefur með misbeitingu valds og með því að misnota traust brotið á fjölda kvenna og barna í áranna rás. Nöfn okkar skipta ekki máli heldur hann sem gerandi. Umræðan á að snúast um hann, brot hans og afleiðingar þeirra. Það er kominn tími til að Jón Baldvin taki afleiðingum gerða sinna.
Við erum sterkari eftir þessa reynslu en líka fullar af auðmýkt og þakklæti vegna þess mikla stuðnings sem við höfum notið. Við viljum þakka þeim fjölmörgu sem hafa haft samband við okkur og tengst síðunni #metoo Jón Baldvin Hannibalsson. Þar eru nú um 760 meðlimir og er öllum velkomið að slást í hópinn. Okkur finnst margt benda til þess að nú sé samfélagið tilbúið að hlusta og vilji læra af fyrri mistökum. Hægt er að lesa sögurnar á vefnum : https://metoo-jonbaldvin.blog.is/blog/metoo-jonbaldvin/
Við erum stoltar af því að stíga þetta skref sem við vissum að yrði hvorki auðvelt né sársaukalaust en það er styrkur að gera það sem hópur. Það er líka gott að vita að með því að heyja þessa baráttu höfum við blásið öðrum konum kjark í brjóst. Það gerir þetta allt saman þess virði.
Sameinaðar erum við óttalausar.“
Tengt efni:
https://www.fti.is/2019/02/03/jon-baldvin-segist-saklaus-og-ad-kynferdisbrot-hafi-verid-svidsett/