Þrátt fyrir tilfærslur á fjárveitingum verða verklok árið 2022
Deiliskipulag vegarins um Kjalarnes, sem var samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar, var staðfest síðast liðið sumar. Síðan hefur verkið verið í undirbúningi og stefnt er að því að bjóða út verkhönnunina á næstunni en verkið er það viðamikið og stórt að talsverð vinna liggur í gerð útboðsgagna.
Fljótlega verður einnig sent út kynningarbréf til landeigenda en samningar við þá fara fram eftir fyrirfram ákveðnu lögbundnu ferli. Ekki hafa komið upp nein vandamál, hvorki gagnvart landeigendum né öðrum verkþáttum. Reikna má með að í haust verði strax hafist handa við t.d. lagningu hliðarvega sem síðan munu nýtast til að beina umferðinni um þegar framkvæmdir verða í fullum gangi við sjálfa breikkun vegarins.
Eins og fram hefur komið í fréttum þurfti að breyta fjárveitingum í samgönguáætlun frá þingsályktuninni, sem lögð var fram í október 2018. Breytingarnar eru vegna hagræðingarkröfu í fjárlögum upp á um 400 milljónir króna og forgangsröðunnar annarra verkefna og hefur því þurft að færa til alls um 1.500 m.kr. Þessi lækkun fjárveitinga árið 2019 leiðir til samsvarandi breytinga á fjárveitingum næstu ár á eftir.