Heimstorg Íslandsstofu var formlega opnað í gær en það er ný upplýsinga- og samskiptagátt fyrirtækja sem leita viðskiptatækifæra í þróunarlöndum og víðar. Verkefnið var kynnt í beinni útsendingu frá Hörpu og er hægt að nálgast upptöku frá kynningunni hér að neðan.
Heimstorgið er vettvangur þar sem atvinnulíf og stjórnvöld mætast og fyrirtæki geta sótt upplýsingar um mögulegan stuðning við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar þar sem Ísland veitir fjárframlög. Þangað verður einnig hægt að sækja sérþekkingu, stuðning og leiðbeiningar um möguleika á að hrinda hugmyndum í framkvæmd.
Íslandsstofa hefur umsjón með rekstri Heimstorgsins á grundvelli þjónustusamnings við utanríkisráðuneytið. Í baklandi verkefnisins verða sérfræðingar utanríkisráðuneytisins um atvinnulíf og þróunarsamvinnu, viðskiptaþjónustu, uppbyggingarsjóðir í Evrópu, þ.m.t. uppbyggingarsjóð EES, auk annarra samstarfssjóða milli stjórnvalda og atvinnulífs sem íslensk fyrirtæki hafa aðgang að. Jafnframt koma sérfræðingar annarra ráðuneyta og tengiliðir um fjölþjóðlegrar fjármögnunarstofnanir að þessu verkefni.
„Með Heimstorginu er verið að mæta skýru ákalli frá þróunarríkjunum sjálfum um aukna þátttöku til sjálfbærrar atvinnu- og efnahagsuppbyggingar. Íslensk sérþekking og drifkraftur atvinnulífsins geta sannarlega nýst þar svo um munar. Ég bind vonir við að með Heimstorgi Íslandsstofu geti íslensk fyrirtæki látið meira að sér kveða í atvinnustarfsemi í þróunarríkjum og víðar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
„Það er hlutverk Íslandsstofu að veita íslenskum fyrirtækjum þjónustu með það að markmiði að auka útflutningstekjur. Heimstorgið fellur mjög vel að nýrri Útflutningsstefnu Íslands þar sem áhersla er lögð á sjálfbæran vöxt. Með Heimstorginu miðlum við upplýsingum til íslenskra fyrirtækja um tækifæri á sviði uppbyggingar- og þróunarverkefna víða um heim. Stjórnvöld hafa unnið ötullega að því að opna fyrirtækjum dyr á þessu sviði í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það er mikilvægt að hvetja íslensk fyrirtæki til að nýta fyrirliggjandi tækifæri til að vaxa og dafna með nýrri reynslu og þekkingu um leið og þau styðja við atvinnuþróun í samstarfslöndunum,” segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.
Á Heimstorginu verður haldið utan um þær leiðir sem fyrirtæki hafa til að njóta þjónustu og leiðsagnar hjá utanríkisþjónustunni, Stjórnarráðinu og eftir atvikum öðrum fyrirtækjum sem starfað hafa á svipuðum mörkuðum og stefnan er sett á. Þá verður hægt að sækja góð ráð til starfsmanna verkefnisins um hvernig er farsælast að sækja um styrki til valinna verkefna.
Hér má sjá upptöku af opnuninni (byrjar á 11:40):
Heimstorg Íslandsstofu from Íslandsstofa on Vimeo.