Á síðustu þremur áratugum eða svo hafa umræður um geðheilbrigðismál gjörbreytzt. Þar sem áður var þögn er nú svo komið að fyrirheit um umbætur í geðheilbrigðismálum eru á vörum allra stjórnmálamanna.
Einn þáttur þessa máls hefur þó lítið sem ekkert komið til umræðu, hvorki hér né annars staðar en það er geðheilsa á vinnustöðum. Fólk sem á við geðrænan vanda að stríða á enn erfitt með að ræða slík mál opið við yfirmenn og samstarfsmenn og sé það gert er það upp og ofan hvort skilningur er fyrir hendi.
Nú hefur æðsti stjórnandi Lloyds banka, António Horta-Osório, gengið fram fyrir skjöldu og gert geðheilsu á vinnustað að umtalsefni. Í fyrradag birtist grein eftir hann í brezka blaðinu Guardian, þar sem hann hvetur til þess að geðheilbrigðismál á vinnustöðum verði tekin til umræðu, að fyrirtæki leitist við að breyta ríkjandi viðhorfum innan sinna veggja, þ.e. að rjúfa þögnina og vinna að því að breyta afstöðu vinnufélaga til þeirra, sem eiga um sárt að binda.
Hann hefur sett þessi mál á dagskrá innan Lloyds bankakeðjunnar og ástæðan er einföld. Hann þekkir málið af eigin raun.
Í bók minni, Ómunatíð – saga um geðveiki, segir m.a. um þetta efni (bls 106):
„Sjálfur upplifði ég á vinnustað mínum sumt af því, sem hér kemur fram eins og við er að búast á fjölmennum vinnustað. Í einu tilviki undraðist ég ítrekaðar fjarverur starfsmanns og velti því fyrir mér, hvort áfengisvandamál væri orsökin. Í ljós kom að um alvarlegt þunglyndi var að ræða. Veikindi sem starfsmaðurinn vildi ekki tala um af ótta við að það hefði neikvæð áhrif á stöðu hans. Í öðru tilviki sagði annar starfsmaður mér að lokum að hann hefði verið á geðdeild en ekki viljað segja frá því af ótta við að verða sagt upp störfum. Þar sem veikindi konu minnar höfðu varla farið fram hjá samstarfsfólki mínu spurði ég undrandi, hvort viðkomandi hefði átt von á slíkri uppsögn frá mér. Svarið var: ekki kannski frá þér en einhverjum öðrum.“
Það er kominn tími til að fylgja fordæmi aðalbankastjóra Lloyds banka og taka geðheilsu á vinnustöðum til umræðu og vinna skipulega að því að breyta viðhorfi vinnufélaga til þessara sjúkdóma.
Ómunatíð – Saga um geðveiki
Bókin kom út haustið 2011. Hún er eins konar fjölskylduverk og hefst á aðfararorðum eiginkonu höfundar, Sigrúnar Finnbogadóttur. Í eftirmála er birt erindi sem eldri dóttir höfundar, Hulda Dóra Styrmisdóttir, flutti á málþingi geðsviðs Landspítalans vorið 2010 um reynslu sína sem dóttir móður, sem átti við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða í aldarfjórðung. Káputeikning af Sigrúnu Finnbogadóttur er gerð af yngri dóttur hennar og höfundar, Hönnu Guðrúnu Styrmisdóttur.
Í inngangi bókarinnar segir:
„Það hafa margir orðið fyrir þungum áföllum vegna geðsjúkdóma og því miður eiga margir eftir að verða fyrir þeim. Ef þessi saga hjálpar einhverjum þeirra að takast á við þetta erfiða líf er til einhvers unnið.
Það á ekki sízt við um þann þátt málsins, sem snýr að börnum, þegar annað foreldri verður veikt á geði…Þegar öllu er á botninn hvolft er vonin um að bókin geti orðið framlag til þess að málefni þeirra barna verði tekin fastari tökum kannski umfram allt annað ástæðan fyrir því að þessi bók kemur út.“