Annie Ling sýnir ljósmyndir úr lífi hælisleitenda á Íslandi í Borgarbókasafni | Menningarhúsi Gerðubergi 4.maí – 24. ágúst 18′
Ár hvert þrefaldast íbúafjöldinn á Íslandi þegar ferðalangar víðs vegar að úr heiminum koma til landsins í leit að hrífandi landslagi og pakkaðri dagskrá af framandlegum hraunbreiðum, jöklum og fossum.
Sífellt fleiri flóttamenn sækja um hæli á Íslandi, en meirihluti þeirra kemur til Íslands eftir að hafa fengið neitun um hæli í Bandaríkjunum eða Bretlandi. Sumir fá að dvelja á gistiheimilum innan um ferðafólk en flestir dvelja í mikilli einangrun. Í þessum hópi eru flestir frá Balkanskaganum og Miðausturlöndum og þurfa flestir að bíða í marga mánuði eftir að fá svör um dvalarleyfi.
Hvernig upplifa hælisleitendur Ísland í slíkri aðstöðu? Hvernig gengur þeim að aðlagast og skapa sér heimili hér á landi? Er þetta himnaríki eða helvíti?
Annie Ling er fædd 1984 í Tapei og alin upp í Kanada. Hún er heimildaljósmyndari og listamaður með aðsetur í Brooklyn hverfi New York borgar. Hún hefur á undanförnum misserum dvalið með hléum á Íslandi.
Árið 2016 opnaði Annie sýninguna Sjálfstæðar mæður í Þjóðminjasafni Íslands eftir dvöl sem gestalistamaður í Listhúsinu á Ólafsfirði og sumarið 2017 var sýning hennar, Opið hús, sett upp í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík á Ströndum.
Sögur kvenna, innflytjenda og fórnarlamba kynferðisofbeldis hafa verið Annie hugleiknar og hún hefur ferðast víða um heim og unnið að verkefnum sem krefjast þess að hún kynnist náið fólkinu sem hún fjallar um til að fá raunsanna innsýn í líf þeirra og aðstæður.
Fyrsta einkasýning Annie Ling A Floating Population fjallaði um kínverska innflytjendur í Ameríku og var sett upp í MOCA – Museum of Chinese America í New York.
Heimasíða Annie Ling: http://www.annielingphoto.com
Um sýninguna Opið hús – Verksmiðjan, Djúpavík
Interview with RUV (2016) um sýninguna Sjálfstæðar mæður
News in Iceland Review (2016) – Viðtal við Annie Ling