Brettafélag Hafnarfjarðar hefur komið sér vel fyrir í nýrri og glæsilegri brettahöll að Selhellu 7 í Hafnarfirði og opnaði þar formlega í dag aðstöðu eins og hún gerist best í Evrópu. Aðstaðan er fyrir iðkendur á öllum aldri á hjólabrettum, hlaupahjólum, BMX og fjallahjólum. Mikið og gott samstarf hefur átt sér stað á milli félagsins og heilsubæjarins Hafnarfjarðar sem vill auka veg og vanda þessara íþróttagreina í sveitarfélaginu. „Það eru ekki allir sem finna sig í hópíþróttum eða þessum hefðbundnu íþróttagreinum sem standa börnum og ungmennum til boða um allan bæ. Heilsubærinn Hafnarfjörður hefur stutt vel við þær greinar með góðum árangri og með opnun þessarar brettahallar viljum við sýna í verki að jaðaríþróttir og framtak félaga eins og Brettafélags Hafnarfjarðar skiptir gríðarlega miklu máli fyrir stóran hóp ungmenna,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. “Hafnarfjörður er þegar farinn að uppskera með meisturum á sviðinu og er ég þess fullviss að með þessari frábæru nýju aðstöðu þá muni brettaíþróttin blómstra sem aldrei fyrr,“ segir Rósa.
Ein glæsilegasta hjólabrettaaðstaðan í Evrópu
Brettafélagið, sem var áður með aðstöðu í gömlu slökkviliðsstöðinni í Flatahrauni, hefur nú til umráða um 800 fermetra svæði undir starfsemi félagsins í stórum og glæsilegum sal á nýjum stað. Síðustu vikur og mánuði hefur öflugt teymi á vegum félagsins unnið að mótun og uppbyggingu á aðstöðunni og það meðal annars með aðstoð erlendra sérfræðinga. Teymi frá Bandaríkjunum og Danmörku sem býr að reynslu af uppbyggingu tuga brettagarða um alla heim var fengið til landsins til að sjá um verkefnið. Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að taka á leigu Selhellu 7 í Hafnarfirði var tekin í árslok 2023 og síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt. Brettahöllin mun meðal annars hýsa æfingar og keppni snjó- og hjólabretta auk BMX reiðhjóladeilda Brettafélagsins. Flutningurinn í nýtt húsnæði markar tímamót og byltingu í aðstöðu fyrir Brettafélag Hafnarfjarðar sem er 400 iðkenda félag og þá bæjarbúa sem stunda þessar tegundir íþrótta.
Hafnarfjarðarbær óskar Brettafélagi Hafnarfjarðar til hamingju með aðstöðuna og hlakkar til áframhaldandi samstarfs!