Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. maí – 2. júní.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 28. maí. Kl. 4.44 var bifreið ekið austur Hringbraut og á tvær mannlausar bifreiðir gegnt húsi nr. 67. Ökumaðurinn, sem hafði verið að stilla útvarpstækið áður en óhappið varð, ætlaði í framhaldinu að leita sér sjálfur aðhlynningar á slysadeild. Kl. 8.26 varð árekstur með bifreið, sem var ekið út frá bifreiðastæði við hús nr. 8a við Háaleitisbraut, þvert á brautina með fyrirhugaða akstursstefnu til austurs, og bifreið, sem var ekið vestur Háaleitisbraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.45 féll hjólreiðamaður á göngustíg við Arnarnesvog. Hann var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 29. maí kl. 20.16 féll bifhjólamaður á bifreiðastæði við Skólabraut 8. Hann var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 30. maí kl. 20.07 var bifreið ekið austur Einarsnes,beygt til vinstri, áleiðis að heimkeyrslu húss nr. 12, og í veg fyrir hjólreiðamann, sem hafði hjólað austur götuna á eftir bifreiðinni. Hjólreiðamaðurinn féll af hjólinu og var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 31. maí kl. 14.37 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut og aftan á tvær kyrrstæðar bifreiðir í röð bifreiða skammt sunnan Bústaðavegar. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 1. júní. Kl. 15.21 var bifhjóli ekið norður hægri akrein Reykjanesbrautar sunnan Lækjargötu og yfir á vinstri akrein þar sem röð kyrrstæðra bifreiða hamlaði áframhaldandi för. Við það beygði ökumaðurinn til hægri, lenti utan í kyrrstæðri bifreið á hægri akrein og féll í götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.25 var þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi austan Suðurlandsvegar á leið til austurs. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 2. júní. Kl. 13.47 varð árekstur með bifreið, sem var ekið um ytri akrein hringtorgs Lækjargötu og Reykjanesbrautar, og bifhjóli, sem var ekið um innri akreinina og áleiðis út úr torginu. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.29 var bifhjóli ekið í hlið kyrrstæðrar bifreiða á bifreiðastæði Nettós við Þönglabakka. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.