,,Við höfum rætt þetta, sumir hverjir, á hlaupum“ segir sjávarútvegsráðherrann
,,Útflutningur á óunnum fiski fer vaxandi. Einnig færist það í vöxt að stórar útgerðir yfirbjóði á fiskmörkuðum fisk sem síðan er fluttur óunninn til vinnslu í öðrum löndum með þeim afleiðingum að fiskvinnslur hér á landi, sem treysta á að geta keypt hráefni á fiskmörkuðum, verða undir. Um allt land eru fiskvinnslur í þessari stöðu og eru í rekstrarvanda vegna hráefnisskorts og yfirboða þeirra stærri og stöndugri. Sumar þeirra verða að segja upp fólki og jafnvel hætta rekstri ef svo fer fram sem horfir. Efast má um að hér fari saman hagkvæmni stærðarinnar og þjóðarhagur.“ Sagði Oddný Harðardóttir á Alþingi í fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra.
,,Ég vil spyrja sjávarútvegsráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari þróun og hvort samtal hafi átt sér stað um stöðuna við ráðherra byggðamála og ráðherra vinnumarkaðsmála um þróun byggða og fækkun starfa vegna þessa. Einnig vil ég spyrja sjávarútvegsráðherra hvort hann hafi farið yfir það með fjármála- og efnahagsráðherra hver virðisaukinn af unnum fiski til útflutnings er samanborið við þann virðisauka sem skapast við útflutning á óunnum fiski, áhrif á landsframleiðslu og tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. Getur ráðherra ekki tekið undir það með mér að hér sé á ferðinni óheillaþróun og að finna þurfi lausn ef fiskvinnslur sem treysta á fiskmarkaði eiga að lifa af?
Kristján Þór Júlíusson svaraði fyrirspurninni að bragði: ,,Ég hef heyrt umræðu um þessi efni, um vandkvæðin sem kunna að skapast af því að á stundum geti verið um of mikinn útflutning að ræða fyrir tiltekinn hluta fiskvinnslunnar í landinu. Á því máli eru hins vegar ýmsar hliðar. Útgerðir af öllum stærðum, sérstaklega þó, hefði ég haldið, litlar og meðalstórar, njóta þess líka í afkomu sinni ef verð á mörkuðum er hátt. Ég hef heyrt af því að þetta séu líka erlendir kaupendur sem eru að kaupa fisk til útflutnings á íslenskum mörkuðum þannig að viðfangsefnið að leggjast yfir er nokkuð flókið. Ef veruleikinn er sá að við sjáum mjög miklar breytingar í fiskvinnslunni og fækkun starfa hér á landi er sjálfsagt mál að taka þetta til skoðunar. En ég hlýt að nefna í þessu sambandi að þetta er samspil ólíkra þátta. Ég veit t.d. til þess, þótt ekki væri nema út frá minnstu útgerðunum, að þær hafa notið þess að verð hefur stigið á sumum tegundum öðru hvoru, fer það mest eftir framboði og eftirspurn á markaði.
Til að svara spurningu hv. þingmanns, um það hvort ég hafi tekið málið upp við þrjá samráðherra mína, höfum við ekki gert það með neinum ákveðnum hætti. Við höfum rætt þetta, sumir hverjir, á hlaupum en ekki sest yfir verkefnið á formlegum fundi eða neinu því um líku. Í mínum huga er viðfangsefnið ekki orðið það stórt að það kalli á ítarlega greiningu.