Ríkislögreglustjóri hefur birt skýrslu um fjölda tilkynninga til lögreglu vegna heimilisofbeldis og ágreinings milli skyldra/tengdra aðila fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins á vefsvæði lögreglunnar. Lögreglan á landsvísu fékk 568 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila á tímabilinu.
Jafngildir það að meðaltali rúmlega 6 slíkum tilkynningum á dag, eða 189 tilkynningum á mánuði. Tilkynningum fækkar því um 3% samanborið við sama tímabil á síðasta ári og er meginskýringin að færri ágreiningsmál eru skráð. Ef aðeins er horft til heimilisofbeldismála þá fækkar tilkynntum brotum um rúm 9%.
Beiðnum um nálgunarbann fjölgar
Í febrúar 2024 gaf ríkissaksóknari út ný fyrirmæli til ákærenda um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þar er meðal annars fjallað um vægari úrræði ef viðkomandi hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn nálgunarbanni eða brottvísun, handlagningu síma og tölvu og notkun á ökklabandi við ítrekuð brot. Ekki má finna upplýsingar í skýrslunni um nýtingu vægari úrræða en beiðnir um nálgunarbann voru 33 eða rúmlega 6% fleiri en meðaltal sama tímabils síðustu þriggja ára á undan.
Heimilisofbeldismálum þar sem lífi og heilsu árásarþola í nánum samböndum (218. gr. b Alm. hgl.) var ógnað endurtekið eða á alvarlegan hátt fækkar umtalsvert. Þau voru 15 talsins á tímabilinu eða helmingi færri en meðaltal sama tímabils síðustu þriggja ára á undan.
Þriðjungur manndrápa heimilisofbeldi
Í skýrslunni má finna greiningu á manndrápsmálum á tímabilinu 1999-2022. Á tímabilinu voru 34% mála þar sem fyrir lágu náin eða fjölskyldutengsl á milli brotaþola og sakbornings, þar af 21% þar sem um var að ræða maka eða fyrrum maka. Algengustu tengslin voru kunningjar eða vinir eða í 56% mála.
Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.
Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is má einnig finna nánari upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða.