Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað Matvælastofnun (MAST) og Fiskistofu vegna málsókna sem tveir starfsmenn Hvals hf höfðuðu á hendur stofnununum.
Málin voru höfðuð vegna vegna eftirlits við hvalveiðar í ágúst og september 2022. Töldu stefnendur að reglugerð um eftirlit með velferð dýra við hvalveiðar hefðu ekki lagastoð og að lög um velferð dýra eigi ekki við um hvalveiðar. Einnig töldu stefnendur að lög um persónuvernd hefðu verið brotin á þeim með myndbandsupptökum af veiðunum sem Fiskistofa sá um í umboði MAST. Jafnframt kom fram í málssókninni að stefnendur teldu eftirlitið ganga gegn meðalhófi í stjórnsýslu.
Niðurstaða héraðsdóms er að umrædd reglugerð hafi stoð í lögum um velferð dýra en lögin gilda einnig um hvalveiðar. Viðvera eftirlitsmanna um borð í hvalveiðiskipunum og eftirlit, þ.m.t. myndbandsupptökur, hafi ekki verið umfram tilefni eða heimildir. Því sé ekki sýnt fram á að eftirlitið hafi gengið gegn meðalhófi.
Að auki kemur fram að myndatökur við greinarnar skilgreinist ekki sem rafræn vöktun í skilningi persónuverndarlaga. Myndatökurnar hafi fyrst og fremst beinst að veiðunum en ekki stefnendum. Óhjákvæmilegt hafi verið að mynda stefnendur í leiðinni, og þær upplýsingar sem þar kom fram séu ekki viðkvæmar. Frávik gagnvart ákvæðum persónuverndarlaga hafi ekki verið það veigamikil eða íþyngjandi gagnvart stefnendum að þau geti talist vera ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu þeirra. Rýr rökstuðningur hafi verið fyrir bótakröfum og MAST og Fiskistofa því sýknuð af öllum kröfum.